151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[20:33]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir fyrirspurnina. Þetta er einmitt staðreyndin. Það segir okkur allt að hann skuli vera á fundi fjárlaganefndar og að þeir skuli segja: Það þýðir ekkert að borga inn í kerfið. Og veistu vegna hvers? Það þýðir ekkert vegna þess, sem er kannski skelfilegast, að ef settur er 10.000 kall einhvers staðar inn í kerfið hefur maður ekki hugmynd um hvaða áhrif það hefur. Og það sem er merkilegast við það er að þessi 10.000 kall í kerfinu í dag getur reynst sumum 15.000 kr. tap. Að við skulum vera með svona kerfi, að við skulum hafa viðhaldið því og að við skulum bara vera að ræða það hér yfir höfuð er glórulaus heimska. En einhverra hluta vegna er þetta svona.

Þegar ég kom fyrst inn á þing var ég alveg sannfærður og hugsaði með mér: Þetta hljóta að vera mistök. En ég er alveg búinn að átta mig á að þetta eru ekki mistök. Þetta er vísvitandi og viljandi gert. Þeir vita að þeir geta lagt peninga inn í kerfið en þeir vita líka að þeir fá það allt til baka. Þetta er auðvitað bara ofbeldi vegna þess að þeir vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera í þessu kerfi. Núna eru þeir komnir með þá frábæru afsökun að það þýði ekki að setja neitt inn í kerfið vegna þess að það hverfi allt. Þetta er þeirra kerfi og það þarf auðvitað að núllstilla það. Við þurfum að finna rétta framfærslu, við þurfum að vera með skatta og skerðingar miðað við rétta framfærslu. Þeir sem lenda t.d. í áföllum eða slysum eða einhverju og detta út af vinnumarkaði og annað, við eigum ekkert að byrja að skerða einn né neinn fyrr en hann er alla vega kominn í rétta framfærslu og upp fyrir lágmarkslaun sem eiga auðvitað að vera rétt þannig að fólk geti lifað mannsæmandi af þeim. Þá fyrst gætum við farið að tala um skatta og skerðingar ef við værum með heilbrigt og eðlilegt kerfi eins og við ættum að vera með.