151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[20:40]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Þessi fyrsti bandormur sem hér er til umræðu, og ég hef skilið það svo að þeir verði tveir eða þrír, er í sjálfu sér ekki djarfur að sjá. Hann er frekar gamaldags. En mig langaði að fara yfir örfá atriði í þessu frumvarpi, annars vegar atriði sem ég get í sjálfu sér fallist á að séu til bóta og hins vegar atriði sem eru til vansa. Og kannski í þriðja lagi atriði sem hér er ekki að finna en ættu að vera hérna.

Í fyrsta lagi verður maður að fara yfir það að enn einu sinni er hér það sem kallað er hækkun á krónutölusköttum. Það á að skila ríkissjóði 1,8 milljörðum á næsta ári, en það mun að sjálfsögðu kosta landsmenn miklu meira en 1,8 milljarða vegna þess að það að hækka krónutölugjöld um 2,5% nú, eins og gert hefur verið flest ár, að undanteknum kannski tveimur eða þremur fyrir nokkrum árum síðan þegar hér sat ríkisstjórn undir forystu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, er ekki pólitísk ákvörðun. Það er kerfislæg ákvörðun. Og einhver skriffinnur uppi í fjármálaráðuneyti ýtir á enter og reiknar út þessar hækkanir í excel. Það er hins vegar pólitísk ákvörðun, frú forseti, að hætta við þetta. En núverandi ríkisstjórn er ekki frumleg, hún er ekki djörf og hefur þess vegna ekki áhuga á því að brjóta aðeins í blað og hætta við þetta. Það er annað sem gerist við þessar svokölluðu sjálfvirku hækkanir, það gefur öllum þeim sem selja vöru og þjónustu á Íslandi ákveðið svigrúm til að hækka þjónustu sína um sömu krónutölu án þess að þurfa sérstaklega að gera grein fyrir því af hverju það er gert, og þeir geta þá vitnað í þetta plagg sem við erum að vinna við.

Fyrst við tölum um sölu á vöru og þjónustu, þá er það náttúrlega mjög merkilegt að hér hefur vöruverð hækkað undanfarið mjög mikið, að sumu leyti til vegna lækkunar krónu. En að öðru leyti segja menn að það sé vegna launahækkana. Þegar ég fer í stórmarkaðinn þar sem ég versla yfirleitt afgreiða flestir sig þar sjálfir. Ég held hreint ekki að þeir hafi fengið launahækkun við það að afgreiða sig sjálfir. Ég held þvert á móti að þeir afgreiði sig sjálfir um dýrari vöru en þeir keyptu í fyrradag og í mánuðinum á undan. Þannig að það fordæmi sem ríkið setur hér með því að hækka svokölluð krónutölugjöld um 2,5% er varhugavert, í staðinn fyrir að ganga á undan með góðu fordæmi og segja öllum þeim sem selja vöru og þjónustu: Ríkið ætlar að halda þessum liðum óbreyttum. Þegar þær 1.800 milljónir sem hér er um að ræða hljóma eins og smáaurar í samanburði við það sem leggja þarf út núna vegna þess hvernig ástandið er — og það er kannski líka þess vegna sem þetta er ekki rétti tíminn til að gefa upp bolta til allra þeirra sem stunda verslun og viðskipti á Íslandi, að þeim sé frjálst að hækka vöru og þjónustu um 2,5% í samræmi við það sem ríkið er að gera sjálft. Það finnst mér afleitt. Ég hefði viljað óska þess að ríkisstjórnin hefði þann kjark eða þann frumleika sem þarf til þess að vinda ofan af þessu einu sinni.

Hér er líka gert ráð fyrir að sérstakt gjald til Ríkisútvarpsins verði hækkað um nokkur hundruð krónur, sem fólk munar líka nokkuð um. Þetta á að skila 180 millj. kr. En eins og þekkt er þá er Ríkisútvarpið ohf. ekki undir beinu boðvaldi Alþingis og ekki framkvæmdarvaldsins, það er enginn sem getur sett Ríkisútvarpinu hagræðingarkröfu nema stjórn fyrirtækisins. Þess vegna er afleitt að menn skuli grípa í það að rétta þessu fyrirtæki peninga í stað þess að ætlast til þess að Ríkisútvarpið taki á sig skerðingar eins og önnur — má ég segja ríkisfyrirtæki? Staða þessa fyrirtækis er mjög óljós að því er virðist. Þar á meðal hefur komið fram í svörum hæstv. menntamálaráðherra að ekki er hægt að svara því hvort starfsmenn þessa fyrirtækis njóti kjara og réttinda opinberra starfsmanna eða ekki. Það væri út af fyrir sig einnar messu virði fyrir hæstv. menntamálaráðherra að kanna það svo hægt sé að skýra það með almennum hætti.

Það sem má kannski segja að sé gott eða til batnaðar í þessu frumvarpi er t.d. það að hækka skattleysismörk erfðafjárskatts. Erfðafjárskattur er nú einn af þeim sköttum sem manni finnst einna ógeðfelldastur. Það er ógeðfelld tilhugsun að hægt sé að leggja skatt á fólk út yfir gröf og dauða vegna þess að yfirleitt er þetta nú bara ævisparnaður eins einstaklings, í fáum tilfellum eitthvað annað, þar sem búið er að borga skatta af þeim tekjum sem skópu þessa eign. Það er búið að borga eignarskatta af þessum sömu eignum. Samt er ekki hægt að sleppa hendinni af því um leið og því er skipt milli þeirra sem eftir lifa, það verður að kroppa aðeins þar í. Þessi skattur væri náttúrlega best kominn úti í hafsauga.

Það má líka segja að það sé til bóta að sóknargjöld séu hækkuð nokkuð, en sóknir á Íslandi eru mjög margar vanfjármagnaðar. En síðan er líka verið að beita því nú, vegna þess að kirkjan hefur verið fjársvelt, að stækka sóknirnar og fjölga kirkjum sem hver og einn prestur rækir. Í sjálfu sér má segja að þar með sé verið að skerða þjónustuna við sóknarbörn í viðkomandi sóknum að hafa ekki aðgang að þjónustu prests eins og verið hefur. En það er önnur saga.

Það er hins vegar annað sem mér finnst algjörlega vanta inn í þetta plagg, frú forseti, sem fjallar um tekjuöflun ríkisins. Það virðist vera viss tregða í gangi hjá þeirri ríkisstjórn sem nú situr og jafnvel áhugaleysi um að innheimta gjöld, réttilega álögð gjöld og þegar álögð gjöld. Það er eins og það sé einhver tregða á því. Við höfum séð dæmi um það nú upp á síðkastið þar sem tollar af innfluttum landbúnaðarafurðum virðast ekki hafa verið í neinu samræmi við innflutninginn sem verið hefur og hann er mjög vaxandi. Í sjálfu sér má segja að þetta sé þrefalt brot; þetta er brot gegn ríkissjóði, sem verður af tekjum. Þetta er brot gegn bændum, sem verða af tekjum sem annars hefði orðið til ef þeir hefðu framleitt þessa vöru hér innan lands. Í þriðja lagi er þetta brot gegn neytendum, því að varan sem hefur verið flutt rang-tollmerkt inn til Íslands. Það verður ekki séð að það hagræði sem ætla má að menn hafi haft af þessum innflutningi hafi skilað sér í vöruverði til neytenda. Hafi menn efasemdir um að þarna sé pottur brotinn er rétt að minna á að í þarsíðasta mánuði, í október, bar svo við varðandi svokallaðan jurtaost, sem búið er að flytja inn 30 tonn og upp í 50 tonn af á mánuði allt þetta ár til Íslands, að þegar farið var að rannsaka þann innflutning og tollmeðferðina á þeirri vöru hætti innflutningurinn nánast. Það voru flutt inn 2 tonn í október síðastliðnum. Það bendir til tvenns: Annaðhvort hefur orðið róttæk neyslubreyting, breyting á neysluvenjum landsmanna á einum mánuði, eða að varan, sem flutt var inn og hefur verið flutt inn hér mánuðum og árum saman, hefur verið flutt inn á röngu tollnúmeri, sem hefur orðið til þess að ríkissjóður hefur misst tekjur og neytendur hafa borið skarðan hlut frá borði, fyrir utan náttúrlega bændur sem missa spón úr aski sínum.

Það er þessi tregða sem mér finnst algerlega óskiljanleg. Miðflokkurinn hefur flutt núna þrisvar sinnum, að ég tel, við 2. umr. fjárlaga undanfarin ár tillögur um að tolleftirlit verði hert. Það virðist vera sem enginn eða fáir fulltrúar kerfisins sem maður hittir séu meðvitaðir um hvað tolleftirlit er. Tolleftirlit er ekki maður suður á Keflavíkurflugvelli að opna ferðatöskur. Tolleftirlit er að fylgja því eftir að vara sem flutt er til landsins, hver sem hún er, hvort sem það eru varahlutir, landbúnaðarafurðir eða hvað það er, sé flutt inn á því tollnúmeri sem vera ber og innkaupsverð sé rétt innfært til þess að ríkissjóður fái í sinn hlut það sem honum ber. Ég kann ekki tölu á því hversu oft sá sem hér stendur hefur átt viðræður við hæstv. fjármálaráðherra um þessi mál. Það virðist vera að hæstv. fjármálaráðherra sé ekki mjög áhugasamur um að innheimta gjöld í ríkissjóð, þ.e. gjöld þegar álögð. Við erum ekki að tala um nýja skattheimtu, frú forseti, svo það sé alveg klárt, heldur innheimtu þegar réttilega álagðra gjalda.

Hvað hefur þetta haft í för með sér að auki? Jú, þess eru dæmi, því miður, að óvandaðir hafi stofnað fyrirtæki í innflutningi og þegar kemur að því að greiða það sem rétt er, eða komið er að skuldadögum, fara þessi fyrirtæki fyrir borð og verða gjaldþrota og ríkissjóður situr uppi með tapið í öllum tilfellum. Þarna vantar eftirlit og það er alveg klárt mál að þarna vantar mannafla. Á það hefur ítrekað verið bent þessi undanförnu ár og menn hafa skellt skollaeyrum við. Og, nota bene, frú forseti, þetta eru ekki útgjöld sem eru óbætt eða líkindi á því að þau verði ríkissjóði til útgjaldaauka, þvert á móti eru þau sett fram til þess að innheimta ríkissjóðs batni. Auðvitað lifum við í breyttum heimi miðað við það sem við gerðum fyrir sléttu ári síðan. En ég man ekki betur en að síðast þegar ég spurði hæstv. fjármálaráðherra um hvað talið væri hversu miklir fjármunir væru á sveimi í hinu svokallaða svarta hagkerfi sem ekki væru greidd tilskilin gjöld af til ríkissjóðs — það þurfti nokkrar fyrirspurnir til að fá svar — var svarið á þeim tíma 80 milljarðar kr.

Það hefur líka verið bent á það núna undanfarin ár, m.a. af þeim sem hér stendur, að í ferðabransanum, sem nú liggur í dvala, var einn angi sem kallast í daglegu tali airbnb — þó að ég vilji ekki tala ensku hér í þessari pontu, forseti, þá man ég ekki eftir því að þetta hafi verið íslenskað — að það kom fram um daginn, eftir athugun skattrannsóknarstjóra, að í þessum geira einum hefðu verið vantaldar tekjur upp á 23 milljarða undanfarin ár, 23 milljarða. Ekki er ég viss um að mikið af þeim álögðu gjöldum sem þessu fylgdu innheimtist við þær aðstæður sem nú eru uppi. En það kemur aftur vor í dal og það koma hér aftur ferðamenn, vonandi, og þá þurfum við, frú forseti, að vera klár í að hafa alvörueftirlit með þeirri starfsemi sem þá verður stunduð. Og ekki bara til að hundelta menn uppi með einhverja gjaldasvipu á lofti, heldur líka vegna þess við skulum ekki gleyma því að þeir aðilar sem sleppa undan því að greiða réttmæt og rétt álögð gjöld, eru líka að skekkja samkeppnisstöðuna við þá sem reka heiðarleg fyrirtæki.

Svo ég haldi áfram að tala um ferðamannabransann, þótt hann liggi nú í dvala, var þessi tegund gistingar á sínum tíma kannski þriðjungur eða meira af allri gistingu t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu. Ef þar hefur fé verið komið undan skatti á sínum tíma, eins og þessar tölur sem ég bar fram áðan benda til, þá hefur það náttúrlega skekkt verulega samkeppnisstöðu hótela og gististaða gagnvart þessum aðilum. Við í þessum sal eigum að tryggja að menn séu jafn réttháir, allir. Við erum hér með lög og reglur, jafnræðisreglu, og við erum með reglur sem kveða á um að menn eigi að standa jafnt að vígi, og framfylgja því að svo sé gert. Þannig að inn í þetta frumvarp vantar að mínu áliti, og örugglega fleiri, ákvæði um að tolleftirlit og skatteftirlit skuli eflt á Íslandi með fjármunum. Það kostar peninga að græða peninga, svo ég hraðsnari nú einu amerísku orðtaki sem var á vörum margra hér áður.

Í stuttu máli sagt: Þetta frumvarp er fyrirsjáanlegt. Það er gamaldags. Í því er enginn djarfleiki eða frumleiki. Það er ekki mikil pólitík í þessu frumvarpi. Það er meira svona eins og á sjálfstýringu ofan úr fjármálaráðuneyti. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, frú forseti, að stjórnmálamenn eigi að stjórna. Þeir eiga ekki að vera með nefið ofan í hvers manns koppi eða anda ofan í hálsmálið á öllum sem vinna hjá ríkinu. En stjórnmálamenn eiga að stjórna á þann hátt að þeir eigi að marka stefnu. Þetta plagg hér markar ekki stefnu. Það keyrir áfram á sömu ferð, á hægri ferð, og ekki er verið að velta við steinum í þessu frumvarpi. Þess vegna ber ég þá von í brjósti, fyrst von er á tveimur bandormur í viðbót, að þar muni örla á frumlegri hugsun. Að þar munu örla á vilja til að brjótast út úr kyrrstöðu eins og boðuð er hér. Að þar verði alvöruákvarðanir, djarfar ákvarðanir, teknar af mönnum og konum sem kjörin eru til þess af almenningi að sinna hagsmunum almennings en ekki að eltast við kerfislæg verkefni sem eru til fyrir kerfið sjálft og viðhalda því, frú forseti. Það er ekki okkar verkefni í þessum sal.

Ég sé að tíminn er að hlaupa frá mér og það kann að vera að maður komi hér í aðra ræðu einhvern tímann síðar við þessa umræðu til þess að fara betur ofan í einstaka liði. En ég ítreka að þetta er kyrrstöðufrumvarp og kerfislægt mjög.