151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

mannvirki.

17. mál
[21:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannvirki, eða um flokkun og eftirlit með mannvirkjum.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um mannvirki, nr. 160/2010, sem fela meðal m.a. í sér að ráðherra skuli í reglugerð flokka mannvirki eftir stærð, vandastigi, fyrirhugaðri notkun og samfélagslegu mikilvægi með það að markmiði að hægt sé að aðlaga umsóknarferli og eftirlit að umfangi framkvæmda.

Þá er í frumvarpinu að finna ákvæði sem varða rafræn skil á hönnunargögnum, rafrænar undirskriftir og samþykki vegna umsóknarferils og skil á gögnum vegna mannvirkjagerðar. Með frumvarpinu er lagt til að krafa um faggildingu fyrir byggingarfulltrúaembætti sveitarfélaga og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun samkvæmt 19. gr. laganna verði felld brott.

Með frumvarpinu er lagt til að mannvirki verði flokkuð eftir áhættustigi og gert ráð fyrir að eftirlit með þeim verði til samræmis við þá flokkun. Þá er einnig fjallað um það á hvaða hátt beri að haga eftirliti með gæðastjórnunarkerfum þeirra sem að mannvirkjagerð koma, þ.e. löggiltra hönnuða, byggingarstjóra og löggildra iðnmeistara.

Í umsögn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er á það bent að orðalag frumvarpsins um að eftirlitið verði framkvæmt á grundvelli skráðra upplýsinga í byggingagátt gæti valdið þeim misskilningi að tilefni til eftirlits fari eftir því að athugasemdir um störf þessara aðila séu skráð í byggingagátt. Þá kunni orðið „úrtaksskoðun“ að valda misskilningi.

Meiri hlutinn leggur til breytingu á ákvæði b-liðar 4. gr. frumvarpsins um tilefni eftirlits með gæðastjórnunarkerfum. Þessari breytingu er ætlað að tryggja að framkvæmd eftirlits sé ótvíræð og auðlesin jafnt fyrir þá sem framkvæma eftirlitið og þá sem sæta eftirliti.

Fyrir nefndinni og í umsögn Öryrkjabandalags Íslands komu fram athugasemdir og ábendingar um mikilvægi þess að reglum um fullt aðgengi fyrir alla verði fylgt í hvívetna og hvatt til þess að lögð verði aukin áhersla á framfylgni við gildandi hönnunarkröfur. Tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið og beinir því til leyfisveitenda að tryggja það að reglum um fullt aðgengi fyrir alla að mannvirkjum verði eftirleiðis framfylgt.

Þarna er verið að leggja áherslu á, og eins og áður með rafrænu skilin og annað, að það sé hægt að hafa visst gæðastjórnunarkerfi með þessu og þegar þetta gæðastjórnunarkerfi væri notað væri fylgst með því að þeim lögum og reglum, eins og um algilda hönnun sem eru nú þegar til staðar, sé framfylgt eins og brunaeftirliti er framfylgt og brunakröfum og teikningum og margt annað, burðarþolsteikningar og allt það, að eftirlit með algildri hönnun sé svipað og það og inn á það kemur líka þessi rafræna byggingagátt.

En fyrir nefndinni og í umsögnum var lögð áhersla á að rafræn byggingagátt yrði tekin í notkun. Meiri hlutinn tekur undir þær ábendingar sem henni bárust hvað þetta varðar og beinir því til félagsmálaráðuneytisins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að huga vel að gerð rafrænu byggingagáttarinnar. Telur meiri hlutinn mikilvægt að gáttin komist í almenna notkun við fyrsta tækifæri, en með henni er eftirlit með framkvæmdum bygginga auðveldað til muna. Þá beinir meiri hlutinn því einnig til áðurnefndra aðila að huga sérstaklega að úttektum, mati og skráningu á rakaskemmdum í nýbyggingum og efla eftirlit á því sviði.

Svona aðeins til áréttingar og skýringar í lokin þá vil ég geta þess að þetta ferli er búið að vera núna í gangi í allt að tíu ár, að móta og breyta eftirliti með framkvæmdum. Ég tel að það eigi að takast núna að samræma eftirlitið, auka gæði eftirlitsins, úttektir og annað slíkt með því að koma þessari rafrænu byggingagátt á, þá er orðið meira samræmi og annað slíkt. Þá held ég að það sé hægt að hafa betri yfirsýn yfir þetta þannig að hægt sé að tryggja hag neytenda hvað best og þá verði auðveldara fyrir byggingarfulltrúana að sinna þessu eftirliti og samræma sig í þessu.

Þá vísa ég bara til breytingartillögunnar á breytingartillöguskjalinu með nefndarálitinu. Hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu en að öðru leyti skrifa undir álitið hv. þingmenn Helga Vala Helgadóttir, sá sem hér stendur, Vilhjálmur Árnason, Ásmundur Friðriksson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Ólafur Þór Gunnarsson.