151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

mannvirki.

17. mál
[21:34]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. framsögumanni meirihlutaálitsins, Vilhjálmi Árnasyni, fyrir yfirferðina og fagna því máli sem hér kemur fram og öllum meginmarkmiðunum sem þar er hnikað áfram.

Eitt atriði langaði mig að spyrja hv. þingmann um. Það er í nefndarálitinu með breytingartillögu sem hv. þingmaður fór yfir rétt í þessu. Þar segir í 1. mgr. á síðu tvö undir fyrirsögninni Algild hönnun, með leyfi forseta:

„Fyrir nefndinni og í umsögn Öryrkjabandalags Íslands komu fram athugasemdir og ábendingar um mikilvægi þess að reglum um fullt aðgengi fyrir alla verði fylgt í hvívetna og hvatt til þess að lögð verði aukin áhersla á framfylgni við gildandi hönnunarkröfur.“

Og ég held áfram, með leyfi forseta:

„Tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið og beinir því til leyfisveitenda að tryggja það að reglum um fullt aðgengi fyrir alla að mannvirkjum verði eftirleiðis framfylgt.“

Mig langaði að biðja hv. framsögumann nefndarálitsins að fara kannski af aðeins meiri dýpt yfir hvert verið er að fara þarna, hvort þarna sé verið að horfa til þess að algildu hönnunarviðmiðin verði skylduviðmið, t.d. hvað varðar breidd ganga, anddyra og þess háttar í stað þess að í núgildandi reglum séu þau markmiðsviðmið eða viðmiðunarreglur, samanber grein 6.4.4 um ganga og anddyri.