151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

mannvirki.

17. mál
[21:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Það sem við erum að tala um í máli þessu er hvernig eftirliti, gögnum og öðru er hagað við framkvæmdir og hvernig því er framfylgt. Þetta snýst svolítið um það hvernig núverandi kröfum er framfylgt þannig að við erum ekki að fjalla hér um byggingarkröfurnar eða byggingarreglugerðirnar eða byggingarlög eða það sem kemur að því.

En um það atriði sem hv. þingmaður spyr um, algilda hönnun, hefur farið fram mikil umræða og komið hafa fram markmiðsgreinar og búið að vera að þróa þetta. Það sem við erum að leggja áherslu á, og Öryrkjabandalagið í umsögn sinni, er að niðurstöðum þessara umræðna, þessarar lagasetningar og reglugerða sem við höfum komið á hingað til sé alla vega framfylgt.

En við erum ekki að fjalla um reglurnar sjálfar um algilda hönnun heldur að þeim reglum og niðurstöðum sem við höfum fengið í vinnu undanfarinna ára sé í það minnsta framfylgt og eitthvað sé í kerfunum sem sjái til þess, ekki þannig að teikningarnar komi og það líti út fyrir að farið sé eftir lögum og reglum en svo sé raunin einhver allt önnur. Svo er oft verið að byggja byggingar, meira að segja opinberar byggingar fyrir opinbert fé og í almennu kerfunum, þar sem þessum reglum er ekki framfylgt.