151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

mannvirki.

17. mál
[21:40]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði bara að koma hingað upp í andsvör við hv. framsögumann Vilhjálm Árnason. Ég er áheyrnarfulltrúi í velferðarnefnd og er samþykk þessu áliti og fagna málinu. Þær þrjár meginbreytingar sem þarna eru og ganga í gegn ef að líkum lætur eru allar mjög jákvæðar.

Mig langar að fá hv. þingmann og framsögumann til að fara aðeins yfir það hvernig nefndin fór með tillögur eða ábendingar sem komu fram frá OECD varðandi einföldun á regluverki mannvirkjamála. Það kemur fram í nokkrum umsagnanna að það var fenginn frestur til að bíða eftir þessari tilteknu skýrslu og hún fékk töluverða umfjöllun á öðrum vettvangi. Þetta eru ábendingar sem hefði mátt halda að færu hingað inn að einhverju leyti. Ég er áheyrnarfulltrúi í nefndinni en hef svo sem ekki náð að fylgjast með öllum þeim fundum. Telur hv. þingmaður að það sé einhver samsvörun þarna á milli? Ef tímalínurnar hefðu fallið betur hefði þetta verið eitthvað sem hefði verið eðlilegt að flétta hér inn? Eða telur þingmaðurinn mögulega að þessar ábendingar eigi að einhverju leyti erindi inn í framtíðarvinnu við þessi mál? Er einhver skörun þarna? Hefðum við kannski getað farið aðeins betur í þetta?

Það er þetta þriðja atriði í málinu þar sem verið er að leggja til að krafa um faggildingu fyrir byggingarfulltrúaembætti sveitarfélaga og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verði felld brott annars vegar og síðan mikilvæg vinna við einföldun til að flýta fyrir og gera alla þessa vinnu yfir höfuð við eftirlit bæði skilvirkari og einfaldari án þess að slaka á gæðum. Spurningin er kannski: Hefðu þessar tillögur OECD getað bætt gott mál, ef það hefði náðst að taka tillit til þeirra?