151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

mannvirki.

17. mál
[21:45]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Þetta er nákvæmlega eins og þingmaðurinn kemur inn á, þetta er vinna margra aðila sem hefur staðið yfir lengi. Þetta er ákveðið ferli vegna þess að það verður að segjast eins og er að við höfum náð á undanförnum árum og áratugum að byggja upp býsna flókið regluverk, væntanlega af góðum hug en þetta er orðið mörgum þrándur í götu, bæði hvað varðar hraða framkvæmda og kostnað og síðan eftirlitið.

Mig langar á svipuðum nótum að tala um annað atriði, þ.e. þessi rafrænu skil og rafrænu gátt. Verið er að hnykkja á því í frumvarpinu að hægt sé að skila gögnum á rafrænan hátt, með rafrænum undirskriftum og samþykki vegna umsóknarferlis, að það gangi upp og sé hægt að gera sem mest á rafrænan hátt.

Ég er, sem ég veit að hv. þingmaður er líka, mikil áhugamanneskja um að við tökum svolítið stór skref í þeim málum á næstunni og mig langar aðeins að heyra frá hv. þingmanni: Er þetta ekki eitthvað að mati þingmanns, ef þetta tekst vel til og ég trúi því þegar maður fylgist með þeim undirbúningi sem hefur átt sér stað að við eigum eftir að ná góðum tökum á þessu, sem við getum yfirfært á býsna mörg önnur kerfi sem hafa ekki gengið jafn langt? Er þetta ekki vonandi eitthvert lærdómsferli sem er að fara í gang núna, að við náum í kerfinu okkar að opna á þessa rafrænu vinnu til að spara fólki tíma og vinnu og vonandi í kjölfarið kostnað? Sér ekki hv. þingmaður fyrir sér að þetta lærdómsferli sem búið er að fara í gegnum við þetta mál sé hægt að yfirfæra á önnur svið stjórnsýslunnar? Mig langar að heyra hvað hv. þingmaður hefur að segja um það.