151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

mannvirki.

17. mál
[21:49]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en mig langaði til að koma hér upp og fagna þessu frumvarpi. Þetta er hluti af löngu ferli. Eins og hv. framsögumaður nefndarálits velferðarnefndar kom inn á hefur þetta ferli verið í gangi meira og minna í tíu ár með einum eða öðrum hætti. Tekið var nokkuð ákveðið á faggildingaratriðinu, sem er eitt þriggja kjarnaatriða í frumvarpinu, inni í umhverfis- og samgöngunefnd þar sem við eigum báðir sæti, ég og framsögumaður nefndarálitsins, ásamt hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson. Hv. þm. Guðjón Brjánsson, sem situr hér í salnum, var ekki komin inn í umhverfis- og samgöngunefndina þá. Við erum því prýðilega kunnug þessu máli og hér er verið að bregðast við þeim sjónarmiðum sem komu fram þá. Það hefur væntanlega verið á 149. þingi, ef ég man rétt. Ég held að það verði til mikilla bóta að eftirlitskerfið verði miðað við flækjustig og umfang framkvæmda eins og segir hér, með leyfi forseta:

„… að flokka mannvirki eftir umfangi og gerð þeirra í reglugerð. “

Þannig að Landspítali – háskólasjúkrahús og Harpa séu ekki hanteruð með sambærilegum hætti og einbýlishús þar sem byggingaraðstæður eru einfaldar.

Annað af meginefnum frumvarpsins er, með leyfi forseta:

„…að rafræn skil á hönnunargögnum og rafrænar undirskriftir og samþykki vegna umsóknarferlis og skila á gögnum vegna mannvirkjagerðar verði að meginreglu …“

Þetta er bara mjög jákvætt og hluti af því rafræna Íslandi sem er jafnt og þétt verið að byggja upp. Ég fullyrði, eftir að hafa starfað í þessu mannvirkjaumhverfi um nokkra hríð, að þetta verður til mikils hagræðis fyrir alla málsaðila; hönnuði, verkkaupa og verktaka. Þetta mun einfalda utanumhald. Þetta mun minnka líkur á mistökum fyrir utan hluti sem eru tafsamir og safnast upp eins og bara fjölföldun gagna og það að þurfa stöðugt að senda starfsmenn, ég tala nú ekki um í núverandi ástandi sóttvarnaaðgerða, bæjarenda á milli með teikningar til uppfærslu, stimplaðar eftir gamla laginu. Ég er mjög ánægður með að sjá að þetta sé loksins að klárast.

Þriðja meginatriðið í frumvarpinu, eins og fram hefur komið hérna, er að krafa um faggildingu fyrir byggingarfulltrúaembætti sveitarfélaga og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verði felld brott. Hvað þessa faggildingarkröfu varðar voru þær línur lagðar mjög skýrt í umhverfis- og samgöngunefnd á 149. þingi að horfið yrði frá þessum kröfum, enda eru þær úr í takti við það sem gerist í nágrannalöndunum og þessum samanburðarlöndum okkar eins og segir í frumvarpinu sjálfu, með leyfi forseta:

„… hefur ítrekað verið vakin athygli á því að krafa um faggildingu allra eftirlitsaðila þekkist ekki annars staðar á Norðurlöndum eða í öðrum löndum sem Ísland miðar sig við og að of mikill kostnaður lendi á húsbyggjendum verði allir eftirlitsaðilar faggiltir. Þá hefur verið bent á að svo víðtæk krafa um faggildingu sé ekki til þess fallin að einfalda stjórnsýslu og regluverk í byggingariðnaði.“

Það er mjög gott að mark hafi verið tekið á þessum sjónarmiðum til samræmis við það sem hefur verið gegnumgangandi í nefndastarfi þingsins í tengdum málum, bæði í fyrri nefnd mannvirkjamálaflokksins, sem sagt umhverfis- og samgöngunefnd, og síðan núna í velferðarnefnd, að það sé leitað leiða til að tryggja að hægt sé að bjóða fram hagkvæmara húsnæði heldur en tyrfið regluverk ýtir undir og að það verði, ég vil ekki nota orðið nútímavætt, en að það verði alltaf að hugað að því að flæðið verði sem allra best. Átakshópurinn skilaði af sér tillögum í janúar 2019, 40 tillögum um umbætur á húsnæðismarkaði sem m.a. höfðu það að markmiði að lækka byggingarkostnað. Með þessa vinnu og aðra viðlíka, til að mynda sjónarmið Samtaka iðnaðarins, þurfum við að vinna áfram til þess að við séum að framleiða íbúðir og húsnæði af góðum gæðum með sem hagkvæmustum hætti þar sem sem minnstur hluti kostnaður fer í súginn.

Það bætir ekkert húsnæðið, það bætir ekkert fasteignina sem kúnninn er að festa sér að gríðarmikill kostnaður hafi farið í að ljósrita gögn og endasendast kontóranna á milli með stimplaðar teikningar. Við þurfum að setja orkuna í það að fókusinn verði þar sem við getum náð fram hagræði, betra flæði, minna flækjustigi en reyna á sama tíma að viðhalda gæðum bygginga og setja þá orku í að halda vel utan um mál eins og rannsóknir á þeim mygluvandamálum sem hafa verið alltumlykjandi í þessum geira undanfarin ár og sér ekki fyrir endann á. Við þurfum að setja áherslurnar þar sem mestur árangur næst um leið og við reynum að halda áfram með það markmið að geta boðið upp á hagkvæmar byggingar af góðum gæðum án þess að við séum að eyða tíma, orku og peningum í óþarfa og vitleysu.