151. löggjafarþing — 30. fundur,  3. des. 2020.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar .

361. mál
[00:04]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er verið að mæla fyrir frumvarpi til laga um framfærsluuppbót og eingreiðslu sem er hið besta mál og fagna ég því að það sé komið hingað inn í þingið og fari þar af leiðandi til meðferðar í velferðarnefnd.

En það sem mig langar að spyrja hæstv. félags- og barnamálaráðherra um eru dagsetningar á eingreiðslu, 50.000 kr. skattfrjálsar. Það hefur komið fram að 18. desember er dagsetningin og það er búið að ræða það í fjölmiðlum og margir öryrkjar tóku þá dagsetningu sem þannig að búið væri að samþykkja þetta og að það myndi ganga eftir. Ég veit um fólk sem tók þetta svo bókstaflega að það hugsaði með sér: Ókei, nú get ég borgað einhverja reikninga sem ég hef ekki hingað til getað gert. Það gerði það núna um mánaðamótin, í þeirri von að það fengi 50.000 kr. skattlausar 18. desember og hugsaði með sér: Þá get ég notað það þá alla vega til þess að kaupa mat fyrir fjölskylduna, sem sýnir að mörgu leyti hversu þörfin er mikil. Og þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Telur hann að þessi dagsetning, 18. desember, standist? Hvað þarf að gera til þess að tryggja að þessi greiðsla skili sér fyrir þennan tíma þannig að fólk fái þetta pottþétt rétt um viku fyrir jól?