151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

störf þingsins.

[11:33]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég hef ítrekað rætt stöðu atvinnu- og afreksíþróttafólks hér í þinginu að undanförnu. Það virðist því miður vera sáralítill skilningur á stöðu þessa hóps hjá ríkisstjórnarflokkunum, sem setur þau á sama stað og iðkun almennings. Neyðarkall barst í gærkvöldi frá leikmönnum Dominos-deildar karla og kvenna í körfuknattleik sem hvetja ríkisstjórn Íslands og sóttvarnayfirvöld til að heimila ábyrgar æfingar atvinnu- og afreksíþróttafólks að nýju meðan á heimsfaraldri stendur, enda eru æfingar mikilvægasti þáttur hvers kyns iðkunar. Æfingar byggja upp og viðhalda færni, þoli og þreki og í tilfelli íþróttafólks fyrirbyggja þær meiðsl. Þau hafa búið við skertar æfingar frá 20. október á höfuðborgarsvæðinu, en frá 1. nóvember um allt land, á sama tíma og æfingar og leikir fara fram alls staðar annars staðar á byggðu bóli.

Það er auðvitað ekkert grín að vera að berjast við heimsfaraldur, en það virðist sem stjórnarliðar átti sig ekki á muninum á starfi atvinnu- og afreksíþróttafólks annars vegar og hins vegar áhugajoggurum eins og okkur, sem spriklum öðru hverju inni í líkamsræktarstöðvum og upp um fjöll. Við fyllumst stolti vegna árangurs okkar fólks á stórmótum, en staðan núna er sú að verði æfingar ekki leyfðar með góðum fyrirvara áður en leikir verða leyfðir er hætt við að íþróttafólk hafi ekki viðunandi tíma til áðurnefndrar uppbyggingar og verði því hættara við alvarlegum meiðslum og öðrum langvarandi afleiðingum. Slíkt mun hafa veruleg áhrif á keppnisíþróttir innan lands, jafnt sem á landsliðið.

Hvernig stendur á því að í öllum ríkjum heims, nágrannaríkjum sem og ríkjum í fjarska, eru leyfðar æfingar og keppni í íþróttagreinum en ekki hér? Er þetta ekki einhver misskilningur, herra forseti?