151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

störf þingsins.

[11:40]
Horfa

Sunna Rós Víðisdóttir (P):

Virðulegi forseti. Það er annasamt ár handan við hornið. Stjórnvöld og þjóðin munu glíma við afleiðingar heimsfaraldurs og þá eru efnahagsþrengingar fyrirsjáanlegar með tilheyrandi niðurskurði. Það er engin óskastaða. Nú er mikilvægt að þingmenn vinni fyrir þjóð sína og gleymi ekki að réttindi einstaklinga eiga undir högg að sækja, nú meira en oft áður. Nú þegar margir Íslendingar róa öllum árum að því hafa í sig og á í glímu við djúpa efnahagskreppu er eðlilegt að Persónuvernd, ein þessara mikilvægu stofnana, sé ekki það fyrsta sem komi upp í hugann, en hún er gríðarlega mikilvægur hliðarvörður fyrir frelsi einstaklingsins.

Í nýútkominni ársskýrslu Persónuverndar kemur fram að álag á stofnunina hefur margfaldast á skömmum tíma. Stofnunin telur að að óbreyttu verði það varanlegt og muni að aukast ár frá ári. Persónuvernd sem réttarsvið og ekki síst sem stofnun, gætir réttinda einstaklinga og leiðbeinir stjórnvöldum og öðrum um málefni sem varða það hvernig einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og valdhafar skuli fara með persónuupplýsingar um einstaklinga. Oft eru þetta viðkvæmar upplýsingar og ekki síst verðmætar. Það er því mikilvægt að vernda þær eftir bestu getu. Það er skylda stjórnvalda að búa Persónuvernd ásættanleg starfisskilyrði og það er staðreynd að stofnunin hefur ekki bolmagn til að sinna skyldu sinni, hvorki gagnvart stjórnvöldum né almenningi, vegna fjárskorts og undirmönnunar.

Fjölmargir aðilar leita til Persónuverndar með alvarleg mál sem varða grundvallarmannréttindi og ljóst er að stofnanir samfélagsins, einnig Alþingi sjálft, þurfa á leiðsögn Persónuverndar að halda. Staða Persónuverndar er alvarleg og traust almennings til stjórnvalda gæti skaðast varanlega ef þau ákveða að bregðast ekki við ákalli hennar um aukið fjármagn. Fjársvelt Persónuvernd, og það á kosningaári, er grafalvarleg staða og takmarkar verulega getu stofnunarinnar til að sinna lögbundinni skyldu sinni gagnvart samfélaginu. Ég vil því hvetja hv. fjárlaganefnd til að tryggja þessari mikilvægu stofnun viðeigandi fjármagn svo hún geti tryggt okkur öllum persónuvernd.