151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

störf þingsins.

[11:58]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Nú hefur verið lagt fram frumvarp á þinginu um miðhálendisþjóðgarð. Það er gríðarlega mikið fagnaðarefni því að þarna er á ferðinni eitt stærsta framlag Íslendinga til náttúruverndar og er þá stórt til jafnað. Það vekur athygli í málinu hversu mikið samráð hefur verið haft við hagsmunaaðila og hversu vönduð sú vinna er sem liggur að baki, hve mikill tími hefur farið í að reyna að ná jákvæðri lendingu fyrir alla. Skilaboðin sem felast í miðhálendisþjóðgarði eru líka engin smáskilaboð til heimsins. Í því sambandi er rétt að vitna til nýlegrar greinar Jóns Kalmans Stefánssonar á www.visir.is

Það er ekki lengur spurning um hvort þessir miðhálendisþjóðgarður verði að veruleika og það er gríðarlega mikilvægt. Mikilvægi hans fyrir ferðaþjónustu í landinu er óumdeilt, einmitt á þeim svæðum þar sem atvinnuleysi og erfiðleikar í tengslum við heimsfaraldur hafa knúið hvað þyngst að dyrum. Þetta verður frábært tækifæri fyrir okkur öll og fyrir heiminn allan. Tíminn hefur svo sannarlega unnið með náttúruvernd og lítið fræ, sem kallað var hrakyrðum fyrir ekki svo mörgum árum, er nú á góðri leið með að verða að fallegu blómi. Við skulum njóta þess saman og hjálpast að við að vökva þetta frábæra blóm sem við erum að skapa á íslenska hálendinu.