151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[16:48]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Við getum deilt þeirri skoðun að íþróttastarfið sé mikilvægt. Það er einmitt þess vegna sem við komum með sérstakt frumvarp og sérstaka aðgerð til að taka sérstaklega utan um það. Við skulum samt hafa hugfast að síðan í mars hafa verið settar 500 millj. kr. í tekjufallsstyrki sem ætlað var að brúa ákveðið tímabil. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands sá um úthlutun á þeim. Búið er að boða annan skammt af þessum tekjufallsstyrkjum á tímabilinu frá 1. júní — vegna þess að fyrri styrkir náðu til 1. júní — til 1. október sem á að brúa það bil. Hæstv. menntamálaráðherra mun gera grein fyrir því.

Eftir 1. október breyttist landslagið ansi mikið vegna þess að þá lentum við í því að íþróttirnar voru almennt bannaðar. Það var bannað að æfa og bannað að keppa. Fyrir þann tíma voru keppni og æfingar í langflestum tilfellum leyfðar. Það eru beinar sóttvarnaaðgerðir sem stoppa það. Þess vegna erum við að grípa inn í þar með rekstrarstyrkjum sem í þessu frumvarpi er áætlað að kosti 500 millj. kr. Eðli máls samkvæmt vitum við það ekki nákvæmlega, ekki frekar en við vissum um hlutabótaleiðina. Lagt var til við vinnslu frumvarpsins að verktakagreiðslurnar færu í gegnum annan kanal af þeim sökum sem ég hef nefnt hér, að menn hafa hvatt íþróttalífið til að vera frekar með launagreiðslur. Menn hafa talað um að Vinnumálastofnun sé almennt ekki að greiða út nema launagreiðslur. Það var ástæðan fyrir því að það var sett í sérstakan pott og önnur eins fjárhæð er áætluð í það.

Ég vil nú meina að heilt yfir séum við að stíga frekar róttæk skref í þessu efni með því að taka sérstaklega utan um íþróttalífið vegna þess að það hefur fallið á milli skips og bryggju. Við erum sannarlega að gera það hér. En er þetta hafið yfir gagnrýni? Nei, það er ekkert hafið yfir gagnrýni í lífinu almennt og ráðherrann er tilbúinn til að ræða hvað sem er, (Forseti hringir.) hvaða breytingar sem er, (Forseti hringir.) ef þær verða til góðs fyrir íþróttalífið í landinu.