151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

ferðagjöf.

377. mál
[18:13]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um ferðagjöf, nr. 54/2020. Í frumvarpinu er lögð til breyting á lögunum þess efnis að gildistími ferðagjafa sem ekki hafa verið nýttar til fulls verði framlengdur um fimm mánuði. Með þeirri breytingu er stutt enn frekar við ferðaþjónustufyrirtæki um allt land, að því gefnu að frekara svigrúm gefist til ferðalaga og mannamóta á komandi mánuðum.

Í núgildandi lögum um ferðagjöf er stjórnvöldum veitt heimild til útgáfu ferðagjafar til einstaklinga með íslenskar kennitölur fæddra árið 2002 eða fyrr til notkunar hjá fyrirtækjum sem eru skilgreind í 2. mgr. 1. gr. laganna.

Tildrög laganna má rekja til neikvæðra áhrifa kórónuveirufaraldursins á starfsemi ferðaþjónustufyrirtækja hérlendis en vegna víðtækra ferðatakmarkana innan flestra ríkja Evrópu og Norður-Ameríku og víðar hefur faraldurinn komið sérlega illa við ferðaþjónustufyrirtæki hér á landi.

Ferðagjöfin er einskiptisaðgerð af hálfu ríkisstjórnarinnar og eru ætlaðir fjármunir til ferðagjafar allt að 1,5 milljarðar kr. samkvæmt fjáraukalögum fyrir árið 2020. Í frumvarpinu er lögð til breyting á gildistíma ferðagjafar þannig að hann verði framlengdur um fimm mánuði eða til og með 31. maí 2021 í stað 31. desember nk. samkvæmt gildandi lögum. Með framlengingu tímabilsins er einungis átt við ónýttar gjafir. Mun framlengingin því rúmast innan þeirra fjárheimilda sem lagt var upp með að veittar yrðu. Af því leiðir að engin þörf er á viðbótarfjármagni.

Frá gildistöku laganna í júní 2020 til 20. nóvember 2020 sóttu um 175.000 einstaklingar ferðagjöfina af um 280.000 sem hafa fengið hana útgefna, sem nemur um 875 millj. kr. Af þeim hafa um 125.000 þegar nýtt sér gjöfina sem nemur um 625 millj. kr. en tæplega 50.000 ferðagjafir hafa verið sóttar en ekki nýttar til þessa, eða sem nemur 250 millj. kr. Alls hafa 826 fyrirtæki tekið þátt í verkefninu. Þegar horft er til svæðisbundinnar skiptingar fjármagns má sjá að 195 millj. kr. hafa verið nýttar hjá ferðaþjónustufyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu. Þá hafa um 103 millj. kr. verið nýttar hjá fyrirtækjum á Suðurlandi, 72 milljónir á Norðurlandi eystra, 45 milljónir á Vesturlandi, 32 milljónir á Suðurnesjum, 26 milljónir á Austurlandi, 14 milljónir á Norðurlandi vestra og 13 milljónir á Vestfjörðum. Fjármagnið skiptist nokkuð jafnt á helstu flokka ferðaþjónustufyrirtækja. Sem dæmi má nefna að veitingastaðir hafa fengið samanlagt um 197 milljónir, gististaðir um 180 milljónir og um 160 milljónir hafa runnið til ferðaþjónustufyrirtækja í afþreyingu. Þá hafa aðrir flokkar ferðaþjónustufyrirtækja fengið lægri fjárhæðir, svo sem bílaleigur og ferðaskrifstofur.

Virðulegi forseti. Með lögum um ferðagjöf er fólk hvatt til að ferðast innan lands. Eins og áður kom fram eru sóttar en ónýttar ferðagjafir um 50.000 talsins eða sem nemur um 250 millj. kr. af áætluðum 1,5 milljörðum. Það má vafalaust rekja til þess að á gildistíma ferðagjafar hafa sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda verið hertar, m.a. með samkomutakmörkunum sem og lokunum hjá hluta fyrirtækja sem geta tekið við ferðagjöfinni. Þá hafa stjórnvöld hvatt fólk til að ferðast ekki að óþörfu og fara ekki á milli landshluta. Af því leiðir að sjálfsögðu að tækifæri til nýtingar ferðagjafar hafa verið færri en upphaflega var gert ráð fyrir þegar úrræðið var sett af stað, sem hefur í för með sér að áætlaðir fjármunir hafa ekki verið fullnýttir. Verði frumvarpið að lögum og gildistíminn framlengdur má nýta þegar ætlað fjármagn til að veita ferðaþjónustufyrirtækjum hérlendis enn frekari viðspyrnu yfir vetrartímann og fram á vor 2021.

Frumvarpið kallar ekki á breytingar á öðrum lögum og hefur verið unnið í góðu samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið. Frumvarpið felur hins vegar í sér framlengingu á ríkisaðstoðarkerfi sem þegar hefur verið samþykkt af Eftirlitsstofnun EFTA, þ.e. til og með 31. desember 2020, samanber gildandi lög um ferðagjöf. Framlenging á gildistíma er einnig tilkynningarskyld og háð samþykki stofnunarinnar en óformlegt samráð var haft við stofnunina við vinnslu frumvarpsins og fortilkynning send stofnuninni þann 25. nóvember sl. Gerður er fyrirvari um samþykki stofnunarinnar hvað viðkemur lögmætri ríkisaðstoð.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.