151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[15:49]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Við erum nú við 3. og síðustu umræðu um svokallaðan bandorm. Ég hef lagt fram breytingartillögu milli 2. og 3. umr. þar sem gert er ráð fyrir því að sveitarfélögin í landinu fái sérstakan 2 milljarða kr. stuðning vegna álags á félagsþjónustu sína. Tillöguna ber svona að vegna þess að þetta er eiginlega að verða síðasta tækifærið til að koma að tillögu um að komið verði með ríkari hætti til móts við vanda sveitarfélaganna, sem er ótvíræður um þessar mundir. Það liggur fyrir og er, held ég, flestöllum ljóst að álag á félagsþjónustu sveitarfélaganna hefur þegar aukist verulega. Það mun enn aukast verulega á næstu mánuðum og misserum. Þessi tillaga fjallar um það að bæta inn í þennan bandorm sem við erum að fjalla um hér ákvæði til bráðabirgða sem yrði svohljóðandi:

„Ríkissjóður skal styðja sveitarfélög vegna aukins kostnaðar við félagsaðstoð á árinu 2021. Heildarframlög skulu vera 2.000.000.000 kr. og skiptast hlutfallslega milli sveitarfélaga í samræmi við útlagðan kostnað þeirra við að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögum þessum. Ráðherra skal með reglugerð setja nánari reglur um framkvæmd úthlutunar.“

Þetta er gríðarlega mikilvægt mál og mun hjálpa sveitarfélögunum að takast á við þennan vanda, leysir auðvitað ekki allt vandamálið en mun vissulega hjálpa þeim til þess. Tillagan er þannig úr garði gerð að fjárhæðin mun skiptast á milli sveitarfélaganna í samræmi við útlagðan kostnað þannig að framlagið mun nýtast þeim best þar sem mest aukning hefur orðið í félagslegri þjónustu. Ég hvet hv. þingheim til þess að samþykkja þessa tillögu.