151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[17:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að í þessari atrennu þegar þetta mál var fram komið í haust var ekki óskað eftir umsögn frá Samtökum atvinnulífsins, það hefur kannski verið einhver handvömm, en þetta mál hefur verið áður á dagskrá og þá var óskað eftir umsögn frá Samtökum atvinnulífsins. En fyrir nefndina komu fulltrúar frá Félagi kvenna í atvinnulífinu, en ekki frá Samtökum atvinnulífsins að þessu sinni. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég man ekki nákvæmlega þegar þetta mál var á dagskrá á fyrri þingum hvort þeir hefðu sent inn umsögn eða komið sem gestir.

Hvað varðar fjárhagslegan ávinning þá held ég að kostnaður sem myndi verða af þessu, ef þetta gengi eftir, myndi fljótt jafnast út ef jafnræði næðist. Ég hef ekki upplýsingar um beinan fjárhagslegan ávinning í tölum af þessu frumvarpi. En vissulega má segja að ég held að það verði alltaf til góða ef þetta ákvæði myndi nást. Það er svona neyðarúrræði að beita þessari aðferð því að það virðist ekki vera að fyrri ábendingar og lög séu virt að þessu marki.