151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[17:11]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er auðvitað með fjöldamargar spurningar til hv. flutningsmanns þessa nefndarálits. Ef ég fer yfir þau lög sem gilda er í 63. gr. hlutafélagalaga og 39. gr. laga um einkahlutafélög ákvæði um jafna stöðu kynja í hlutafélögum eftir því sem við á. En í 152. gr. hlutafélagalaga er ákvæði þar sem segir:

„Nú vanrækja stofnendur, stjórnendur, framkvæmdastjóri, endurskoðendur eða skoðunarmenn, skilanefndarmenn eða útibússtjóri erlends hlutafélags og aðrir skyldur sínar samkvæmt lögum þessum, félagssamþykktum eða ályktunum hluthafafundar og getur þá hlutafélagaskrá boðið þeim, að viðlagðri ákveðinni dagsekt eða vikusekt, að inna skylduverk af hendi. Bera má lögmæti úrskurðar undir dómstóla innan eins mánaðar frá birtingu hans.“

Þetta á við m.a. ákvæði 63. gr. hlutafélagalaga og 39. gr. einkahlutafélaga. Í 156. gr. hlutafélagalaga segir:

„Sá sem vanrækir tilkynningar til hlutafélagaskrár“ — tilkynningar verða að vera samkvæmt lögum eins og hv. þingmaður veit — „samkvæmt lögum þessum skal sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári.“

Nú spyr ég hv. þingmann: Ætla flutningsmenn og þeir sem standa að þessu frumvarpi virkilega að leggja til að til viðbótar hugsanlega allt að eins árs fangelsi komi líka dagsektir, allt að 700.000 kr. á hverri viku vegna þessara brota? (Forseti hringir.) Og þá spyr ég: Telur hv. þingmaður að þetta muni skila árangri?