151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[18:11]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er nefnilega svolítið merkilegt sem við erum að eiga við. Maður verður var við að stjórnmálamenn nú til dags líta á stjórnarskrána þannig að jú, það er gott að hafa eignarréttarákvæði og það er gott að hafa atvinnufrelsisákvæði en sé pólitískur meiri hluti fyrir einhverju megi víkja frá þessum ákvæðum. Hérna er pólitíska markmiðið að jafna hlutfall kynja í stjórnum félaga. Stjórnarskráin segir bara: Heyrðu, það er óheimilt að víkja undan þessu eignarréttarákvæði nema almenningsþörf krefjist. Það er auðvitað engin almenningsþörf sem krefst þess að það séu jafn margir af hvoru kyni í stjórnum félaga. Það er bara markmið. Það getur verið gott markmið. Það getur verið skynsamlegt markmið, alla vega í vissum tilvikum.

En af því að hv. þingmaður sagði að það væri mikilvægt að við hefðum stjórnarskrá þá spyr maður sig þegar stjórnvöld ganga svona um hana: Er hún þá einhvers virði? Þessi ákvæði sem við í Sjálfstæðisflokki Íslands teljum mikilvægustu ákvæðin, eins og eignarrétturinn, hann er afskaplega marklaus ef við teljum að við getum vikið frá eignarréttarákvæðum með einhverjum pólitískum markmiðum af þessu tagi. Ég ætlaði bara að athuga hvort hv. þingmaður væri sammála mér um þetta, að við séum raunverulega búin að þynna út þessi ákvæði af því að við erum svo göfug, við erum að gera svo gott og við erum að gera svo skynsamlegt. Þá eru hugtök eins og almenningsþörf og ríkir almannahagsmunir bara orðin tóm. Er hv. þingmaður ekki sammála því?