151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[18:19]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki alveg viss um að ég skilji hv. þingmann fullkomlega. Annaðhvort er þingmaðurinn á móti frumvarpinu eða hlynntur því sem stendur í nefndaráliti minni hluta atvinnuveganefndar, sem er undirritað af félögum hans í atvinnuveganefnd, félögum hans í Miðflokknum, um að gera ákveðnar breytingar og lagfæringar á frumvarpinu sem hér liggur fyrir. Ég endurtek spurningu mína: Er hv. þingmaður fylgjandi afgreiðslu þessa frumvarps, enda verði gerðar ákveðnar lagfæringar á því? Það þýðir að dagsektum verður þá beitt en það er spurning hvernig þær verða framkvæmdar. Mér heyrðist hv. þingmaður hins vegar leggjast eindregið gegn því í flutningsræðu sinni. Mér finnst allt í lagi, herra forseti, að þingmaðurinn svari mér bara hreint út. Ætlar hann að greiða atkvæði með sama hætti og ég, þ.e. gegn frumvarpinu sem ég tel að sé ekki hægt að lagfæra, eða ætlar hann að fylgja félögum sínum í Miðflokki Íslands og lagfæra frumvarpið og greiða því síðan atkvæði? Þetta er frekar einföld spurning og það væri gaman að fá svar, og svarið þarf ekki að vera nema eitt orð.