151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[19:09]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir ræðuna. Mér er nokkur vandi á höndum. Ég átta mig ekki alveg á því, og hv. þingmaður fer kannski yfir það í svari sínu, hverjir fyrirvararnir eru nákvæmlega. Allir þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins í nefndinni sem leggur þetta mál fram í þessum sal rita undir nefndarálitið með fyrirvara. Ég veitti því athygli að hv. þingmaður kom inn á að búið væri að óska eftir því að málið yrði kallað til nefndar milli 2. og 3. umr., og ýmislegt hefði komið fram í umræðunni eins og iðulega gerist við 2. umr. En það sem ég átta mig alls ekki á er hvers vegna málið er hér til 2. umr. í dag úr því að það lá fyrir í nefndinni, meira að segja snemma í vinnu nefndarinnar, áður en það var sent til 2. umr., að kalla þyrfti það inn til nefndar milli 2. og 3. umr. Hvað erum við að gera hérna í dag? Það eru níu þingdagar eftir eða þar um bil og næstum heill dagur farinn í þessa umræðu og það lá fyrir fyrir löngu, löngu áður en málið var sent hingað til 2. umr., að það væri svo illa unnið og margt óljóst að það þyrfti að kalla það inn aftur. Getur hv. þingmaður hjálpað mér að skilja þetta? Hvers vegna erum við búin að verja næstum því heilum degi í þetta mál sem er svona vanreifað og illa unnið? Það lá fyrir löngu áður en það var sent hingað til 2. umr. að það yrði kallað inn til nefndar á milli 2. og 3. umr. — Yfir til þín, hv. þingmaður.