151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[19:48]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég biðst afsökunar á að hafa verið á grensunni. Ég hefði auðvitað átt að beina þessari spurningu til hæstv. forseta sem er mun nærtækara að svari þessari spurningu sem ég tel sanngjarna í ljósi þess hvernig umræðan hefur verið hér í dag og hvað hefur komið fram.

Hæstv. forseti taldi þetta vera nær samsvari en andsvari. Við þessum vangaveltum mínum kom svona snaggaralegt svar, hv. þm. Óli Björn Kárason kunni enga skýringu á því að þetta mál væri hér til umræðu í dag, jafn undarlegt og það nú er. Nú eru allir þrír nefndarmenn Sjálfstæðisflokksins á nefndarálitinu, með fyrirvara reyndar, en fyrirvarinn lýtur fyrst og fremst að því að skoða þurfi gögn meira og betur og þar fram eftir götunum. Ég heyrði engar efnislegar athugasemdir koma fram frá eina nefndarmanni Sjálfstæðisflokksins sem tók til máls hér í dag.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Nú hafa nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins tekið þátt í umræðunni í dag, má álykta sem svo að þar séu þeir sem hafi fyrirvara um þessi mál efnislega að lofta út, ef svo má segja, en öðrum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins hugnist þessi nálgun?