151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Þrátt fyrir töluverða umræðu um skerðingar á stjórnarskrárvörðum borgara- og mannréttindum vegna sóttvarnaaðgerða hefur lítið farið fyrir umræðu um skerðingu eins mikilvægasta þáttarins í lýðræðislegu samfélagi, rétti fólks til að koma saman og mótmæla stjórnvöldum, rétti sem varinn er í stjórnarskránni og í ýmsum mannréttindasáttmálum sem Ísland er aðili að. Það er engri ríkisstjórn hollt að sæta ekki virku aðhaldi frá almenningi í formi mótmæla. Formaður Landssambands eldri borgara sagði t.d. á dögunum í tengslum við versnandi lífskjör hópsins, með leyfi forseta: „Ef ekki væri fyrir Covid væru eldri borgarar mættir á Austurvöll.“

Einnig má nefna loftslagsverkföll ungs fólks sem fram fóru á hverjum föstudegi í fyrra hér á Austurvelli en hafa fallið niður vegna faraldursins. Jafnframt má nefna að almenningi er nú sem stendur ekki heimilt að mæta hingað á þingpalla Alþingis.

Forseti. Það verður að finna einhverja útfærslu þannig að þessi mikilvægu réttindi fólks séu tryggð þrátt fyrir tilfallandi heimsfaraldra og aðrar hamfarir. Sú sem hér stendur vinnur nú að þingsályktunartillögu sem hefur samhljóm með góðu þingmáli samflokksmanns míns, Björns Levís Gunnarssonar, sem hann lagði fram á 149. þingi. Þingsályktunartillagan sem ég legg fram er í þeim anda og er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela forseta Alþingis að tryggja möguleika forsvarsmanna undirskriftasafnana og mótmælenda að koma fyrir Alþingi og lýsa afstöðu og kröfum sínum í ræðu þegar réttur manna til mótmæla er skertur vegna sóttvarna eða af öðrum ástæðum.“

Ég geri mér grein fyrir því að tillagan gæti orðið umdeild, en ef þingheimur getur leyft Piu Kærsgaard að ávarpa Alþingi þá hljótum við að geta leyft almennum borgurum að gera það líka.