151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Oft er þörf en nú er nauðsyn að rjúfa fátæktargildru þeirra sem verst settir er í okkar ríka samfélagi og hætta að flokka veikt fólk og eldri borga í þriðja eða fjórða flokk samfélagsþegna, jafnvel ruslflokk. Að þurfa að lifa við fötlun á ekki að vera ávísun á fátækt, hvað þá sárafátækt. Að ríkisstjórn eftir ríkisstjórn setji veikt fólk og eldri borgara í fátæktarruslflokk er ömurlegt. Að ná aldrei endum saman, að vera að alltaf að berjast fyrir hverjum einasta matarbita og það jafnvel í röð, í roki og nístingskulda. Ömurlegt. Að vita aldrei hvernig í ósköpunum maður kemst af er mannskemmandi fyrir fólkið og þá sérstaklega börnin þeirra. Það eru jól fram undan og margir glíma þvílíkan kvíða og vanlíðan fyrir það eitt að eiga ekki fyrir salti í grautinn. Að fólk geti ekki gert nokkurn skapaðan hlut fyrir börnin og geta ekki veitt sér nokkurn skapaðan hlut og hvað þá að geta keypt eina einustu jólagjöf og eiga ekki einu sinni fyrir mat á jólaborðið er ömurlegt. Í Covid-19, sem nú hefur varað í nær heilt ár með tilheyrandi heilsubresti og erfiðleikum, er alla vega smá ljós í myrkrinu. Í dag tökum við á dagskrá mál 361 um 50.000 kr. eingreiðslu, skatta- og skerðingarlaust, fyrir öryrkja. Það er gífurlega góð samstaða hér á þingi um að koma þessu máli sem fyrst í lög þannig að viðkomandi einstaklingar fái það borgað út í síðasta lagi 18. desember. Ég segi: Ef þetta tekst þá er þetta mjög gott fyrsta skref að því að við setjum fólkið í fyrsta sæti.