151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

ráðstafanir til að draga úr notkun pálmaolíu á Íslandi.

112. mál
[15:03]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Eins og fram kemur í greinargerð málsins er til mikils að vinna ef við drögum úr notkun og ræktun pálmaolíu. Þetta mál snýst um loftslagsvernd, dýravernd og vernd þeirra sem minna mega sín. Eins snýst það um tækifæri til aukinnar nýsköpunar í landbúnaði og aukin tækifæri Íslendinga til að vera sjálfstæðir í eigin orkuframleiðslu. Það snýst hins vegar ekki um að ekki sé þörf á að draga úr mengun af völdum jarðefnaeldsneytis. Það kemur skýrt fram í greinargerð málsins og heimildunum sem þar fylgja. Einnig má benda á nýlega heimildarmynd Sir Davids Attenboroughs, Líf á jörðu eða A Life on Our Planet eins og hún heitir á frummálinu. Með samþykkt þessa máls sjáum við vonandi fyrsta skrefið í átt að því að Ísland leggi sitt af mörkum til að minnka notkun pálmaolíu í heiminum og verðum því meðal fremstu þjóða.

Annars vil ég, herra forseti, nýta tækifærið og ítreka þakkir mínar til nefndarinnar og fyrir stuðning hennar við málið. Að lokum hvet ég þingheim til að styðja málið og greiða með því atkvæði.