151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

atvinnuleysistryggingar.

300. mál
[15:12]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti minni hluta velferðarnefndar við þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar er varðar tekjutengdar bætur. Á Íslandi eru atvinnuleysisbætur áunnin réttindi launafólks. Fyrirkomulagið byggist á grunngildum norrænnar jafnaðarstefnu og var komið á hérlendis fyrir tilstilli verkalýðshreyfingar og stjórnmálaflokka sem hafa barist fyrir réttindum almennings. Grunnatvinnuleysisbætur eru 289.510 kr. á mánuði. Að auki eru greiddar 11.580 kr., eða 4% af grunnatvinnuleysisbótum, með hverju barni sem er yngra en 18 ára.

Með lögum um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru voru greiðslur með hverju barni hækkaðar í 6% til bráðabirgða til 31. desember 2020, eða í 17.371 kr.

Tekjutengdar atvinnuleysisbætur eru greiddar út í allt að þrjá mánuði í upphafi hvers bótatímabils, sem er alls 30 mánuðir.

Tekjutengda tímabilið hefur verið lengt tímabundið í sex mánuði frá 1. september 2020 en allir þeir sem þáðu grunnatvinnuleysisbætur fyrir þann tíma fá aðeins þrjá mánuði tekjutengda.

Herra forseti. Það er óskiljanlegt að meiri hlutinn framlengi rétt á launatengdum bótum um einungis þrjá mánuði fyrir þá sem misstu vinnuna í mars eins og frumvarpið gerir ráð fyrir en skilji eftir um 10.000 manns sem eru atvinnulausir og misstu vinnuna í febrúar eða fyrr. Minni hlutinn leggur til breytingar í þá veru að allir sem voru atvinnulausir 1. september 2020 fái tekjutengdar bætur í sex mánuði enda illskiljanleg og órökstudd sú mismunun sem lengd tímabilsins felur í sér. Hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta er 456.404 kr. á mánuði. Tekjutenging bóta skiptir því litlu máli fyrir heildarmyndina ef atvinnuleysistímabil verður langt. Eftir skatt eru grunnatvinnuleysisbætur 242.700 kr. og tekjutengdar bætur 348.500 kr. Af þessum tölum má sjá að fjárhagslegt tjón einstaklings sem missir vinnuna er verulegt og hefur mikil áhrif á rekstur heimilis og fjölskyldu hans.

Með hlutabótaleiðinni er atvinnurekendum gert kleift að halda ráðningarsambandi við starfsmenn sína. Minni hlutinn telur einnig nauðsynlegt að breyta viðmiðum fyrir hlutastörf svo að fyrirtæki geti haldið ráðningarsambandi við fleiri starfsmenn en nú er mögulegt. Við þurfum að koma okkur upp úr þeim táradal sem við erum í. Minni hlutinn leggur því til að viðmiðið verði lækkað aftur niður í allt að 25% starfshlutfall enda getur það skipt verulegu máli fyrir atvinnurekanda að halda ráðningarsambandi við t.d. fjóra starfsmenn í stað tveggja fái ákvæðið að standa óbreytt. Minni hlutinn tekur undir tillögu meiri hlutans sem lýtur að því að hlutabótaleiðin verði framlengd til 1. júní 2021, því að augljóslega tekur það tíma að byggja upp starfsemi að nýju eftir djúpa atvinnukreppu, en bendir á að réttast væri að lækka aftur viðmiðið niður í 25% starfshlutfall.

Ljóst er að sá sem þarf að framfleyta sér á atvinnuleysisbótum verður að draga verulega úr neyslu vegna skertra tekna. Mikið og langvarandi atvinnuleysi hefur því einnig neikvæð áhrif á eftirspurn í hagkerfinu sem aftur fækkar störfum. Kreppan í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru bitnar harðast á þeim sem missa vinnuna og á fjölskyldum þeirra. Grunnatvinnuleysisbætur eru mun lægri en lágmarkstekjutryggingin samkvæmt lífskjarasamningunum. Til að dreifa byrðunum telur minni hlutinn afar mikilvægt að grunnatvinnuleysisbætur verði hækkaðar í 95% af lágmarkstekjutryggingu og rétturinn til atvinnuleysistryggingar lengdur um 12 mánuði. Á næstu vikum og mánuðum missa mörg hundruð manns rétt sinn til atvinnuleysisbóta og geta einungis leitað á náðir sveitarfélaga eftir stuðningi, sveitarfélaga sem nú þegar eru í mjög erfiðri stöðu vegna kórónuveirufaraldursins. Þessi hópur þarf að leita á náðir sveitarfélaga eftir stuðningi sem er helmingi lægri en grunnatvinnuleysisbætur. Ef ekkert verður að gert fjölgar fólki á Íslandi sem býr við sárafátækt.

Hækkun með hverju barni, líkt og samþykkt var að tillögu Samfylkingarinnar, með tímabundinni framlengingu er jákvæð breyting. Breytingin þarf þó að vera varanleg og leggur minni hlutinn til að framlag með hverju barni verði hækkað varanlega.

Herra forseti. Atvinnumissir er alvarlegra mál í kreppu en í góðæri. Fjöldi fólks missir vinnuna á sama tíma. Störfum fækkar, erfiðara verður að finna aðra vinnu og líkur á langtímaatvinnuleysi aukast. Slæmar félagslegar og heilsufarslegar aukaverkanir langtímaatvinnuleysis eru þekktar og þær eru kostnaðarsamar fyrir fjölskyldur og samfélagið allt. Þegar fram líða stundir verður mikilvægast að fjölga störfum en það tekur tíma. Þar þurfum við að standa saman. Atvinnuleysisbætur má hins vegar hækka strax og það er samfélagslega hagkvæmt. Mikilvægt er að atvinnuleitendur finni starf þar sem menntun þeirra og reynsla nýtist sem best, að öðrum kosti er hætta á að verðmæt menntun og sérhæfing glatist.

Því hefur verið haldið fram, m.a. af Samtökum atvinnulífsins, að ef atvinnuleysisbætur hækki fjölgi atvinnulausum og undir það hefur hæstv. fjármálaráðherra tekið, og segir að því sé mikilvægt að halda atvinnuleysisbótum lágum. Þegar störfum fækkar í þúsundatali í heimsfaraldri sem veldur miklum erfiðleikum í stærstu atvinnugrein þjóðarinnar eru slíkar fullyrðingar augljóslega rangar. Engin ný störf verða til með því að skapa neyð á heimilum þeirra sem missa vinnu við þessar aðstæður. Auk þess sýna rannsóknir að atvinnuleysi er ekki meira í löndum sem búa við öflugar atvinnuleysistryggingar. Stór hluti þeirrar upphæðar sem ríkið notar til að hækka atvinnuleysistryggingar skilar sér beint til baka í sköttum og auknum efnahagsumsvifum.

Herra forseti. Minni hlutinn styður að öðru leyti tillögur meiri hlutans en telur brýnt að ganga lengra. Við þurfum að stíga stærri skref. Með vísan til þess sem hér hefur komið fram leggur minni hlutinn til að málið í heild sinni verði samþykkt en þó með þeim breytingum sem fram koma í nefndaráliti með breytingartillögum minni hlutans.