151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[16:32]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst aðeins utan dagskrár þá fannst mér skemmtilegt að heyra hv. þingmann lýsa því hvernig miðhálendislínan væri bara mannanna verk, væri ekki eitthvert náttúrulögmál sem væri dregin í ákveðinni hæð í kringum miðhálendið. Þannig er það með svo margt sem við vinnum með í þessum sal. Það getur verið hollt að muna þetta. Ég hafði líka áhuga á að hlusta á þingmanninn vegna þess að ég veit að hann hefur gefið sig mikið að náttúruverndarmálum og þjóðgarðinum sérstaklega, hafandi setið í bæði Þingvallanefnd og stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs.

Það sem mig langar að spyrja sérstaklega út í er það sem var rauði þráðurinn í því sem hv. þingmaður sagði og virðist vera undirliggjandi í fyrirvörum bæði Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á þetta mál, sem er sáttin. Það skiptir máli að við séum sem flest sátt við svona stór verkefni. Þess vegna langar mig að spyrja þingmanninn, af því að hann hefur verið í þessu ferli öllu, hvort hann telji raunhæft að ná utan um þessa sátt núna í vetur? Þessir sex fyrirvarar sem ég taldi frá honum sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur fram og sjö fyrirvararnir sem Framsóknarflokkurinn leggur fram, sem eru sumir samhljóða en ekki allir, eru dálítið mikið, bara ef við horfum á sáttina sem þarf að ná innan stjórnarflokkanna. Síðan eru alveg ótalið sveitarstjórnarstigið, fólkið þar, frjálsu félagasamtökin, bændurnir og öll þessi samtök sem hv. þingmaður nefnir. Þannig spurningin er í rauninni bara: Telur þingmaðurinn raunhæft að við náum sátt og það náist að klára þetta mál í vetur?