151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[18:37]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Frú forseti. Ég tel þetta mál tímabært, löngu tímabært, og styð það. Ég tel löngu tímabært að á vegum þjóðarinnar sé leitast við að koma skipulagi á þessi miklu víðerni sem eru slík verðmæti að það verður aldrei mælt í krónum og aurum. Ég tel tímabært að stofna þarna þjóðgarð og ég lít ekki á þjóðgarð sem einhvers konar áþján eða viðleitni til ofstýringar eða eitthvað í þeim dúr. Þjóðgarður er í mínum huga sáttmáli milli okkar allra, sáttmáli milli sveitarfélaganna og ríkisvaldsins, sáttmáli bænda sín á milli, sáttmáli milli bænda og þéttbýlisbúa, sáttmáli milli útivistarfólksins sem gjörþekkir hálendið og unir sér þar í öllum sínum frístundum, og svo almennings sem kemur þangað sjaldan og jafnvel aldrei. Það er sáttmáli milli okkar allra, hvar svo sem við búum og hver svo sem staða okkar er gagnvart hálendinu, sáttmáli um að þetta land skuli nýtt með verndun að leiðarljósi og það skuli verndað með nýtingu að leiðarljósi, að verndun og nýting haldist í hendur á frjóan og órjúfanlegan hátt.

Maður verður var við ýmsar áhyggjur margra sem unna þessu landsvæði og það er ekki skrýtið. Margir hafa áhyggjur af því að þessu verði stjórnað frá skrifborðum í Reykjavík þar sem sitji menn sem hafi það helsta áhugamál að loka og banna og boða og vilji ríkja yfir þeim frjálsu fjallaöndum sem þarna vilja fara um og finna tign fjallanna. Það er svo sem ekki skrýtið að slíkar áhyggjur komi upp og það þarf að eiga sér stað meira samtal á milli aðila. En engu að síður lít ég svo á að með þjóðgarði sé ekki verið að loka heldur opna. Í mínum huga snýst þjóðgarður um að opna þetta svæði, þennan helgidóm — talað var um einverunnar helgidóm í ljóðinu „Svanasöngur á heiði“ eftir Steingrím Thorsteinsson — og er helgidómur í huga margra Íslendinga. En mér finnst að það sé verðugt verkefni ekki bara að stýra umgengni og umferð þarna heldur líka að finna leiðir til að opna þetta svæði fyrir okkur öllum svo við getum öll notið þess að upplifa þá miklu fegurð og þann mikla kraft sem þarna er. Til þess þarf uppbyggingu og það þarf vandaða og vandlega hugsaða uppbyggingu. Það þarf fjármagn og það þarf fagmennsku. Ég tel að þjóðgarður sé forsenda fyrir því að þessum skilyrðum sé öllum fullnægt.

Við erum að tala hér um 40% af flatarmáli landsins og eitthvert stærsta svæði í Evrópu þar sem ekki er byggð, stærsta ónumda svæði Evrópu. Við erum að tala um einstaka náttúru sem á sér naumast sinn líka og um fjöldann allan af náttúruminjum og líka sögulegum minjum, menningarminjum og svæðum sem er alveg óhemju mikilvægt að vernda og varðveita. Við erum að tala um að varðveita þá upplifun sem fæst á þessu svæði sem snýst einmitt um að upplifa einverunnar helgidóm, upplifa kyrrðina, upplifa auðnina, upplifa þögnina og upplifa það hvernig maður rennur saman við náttúruna þarna á einhvern þann hátt sem ekki gerist annars staðar. Þetta verður ekki varðveitt nema með þeim hætti sem ég undirstrikaði áðan, með fagmennsku og með fjármagni.

Náttúruverndarsinnar munu hafa ýmislegt við þetta að athuga. Gagnrýni á þetta frumvarp kemur ekki einungis frá þeim aðilum sem vilja óbreytt ástand hvað varðar yfirráð og hvað varðar nytjar. Það mun líka koma gagnrýni frá þeim sem munu reka augun í það að í frumvarpinu er gert ráð fyrir hefðbundnum nytjum, þ.e. áframhaldandi beit á viðkvæmum stöðum. Það er líka talað um hugsanlegar nýjar virkjanir á jaðarsvæðum þó að raunar sé það svo að virkjanir verða æ fjarlægari möguleiki í huga flestra.

Hvað varðar stjórnun þá hvarflar að manni að það kunni að vera að hún sé nokkuð hátimbruð, það er nokkuð hátimbrað stjórnarfyrirkomulag í frumvarpinu sem e.t.v. má viðra efasemdir um. Fyrr í þessari umræðu bárust í tal þjóðgarðar sem ríkir almenn sátt um; Snæfellsnesþjóðgarður, sem ekki einu sinni hv. þingmönnum Miðflokksins tókst að gagnrýna, og þykir hafa tekist mjög vel til þar. Það má líka nefna hvernig staðið er að málum í Þingvallaþjóðgarði og eins má nefna hvernig þjóðgarðinum í Skaftafelli var stjórnað um árabil. En komið hefur fram gagnrýni á fyrirkomulag í Vatnajökulsþjóðgarði og e.t.v. kann að vera að þar séu víti til varnaðar, sem mér þykir kannski að hefði mátt taka meira mið af við smíði þessa frumvarps. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs kom fram gagnrýni á stjórnsýslu þar. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs er dreifð og sjálfstæði rekstrarsvæða við starfsmannahald og aðra rekstrarþætti mikið. Við slíkar aðstæður skiptir miklu máli að miðlæg stjórnsýsla stofnunarinnar sé öflug og geti veitt nauðsynlegt aðhald og stuðning. Veikleikar miðlægrar stjórnsýslu við mannauðsstjórnun og eftirlit með fjárhag, rekstri og samningum þjóðgarðsins hafa haft neikvæð áhrif á starfsemina í heild.“

Þar segir líka, með leyfi forseta:

„Stjórnskipulag Vatnajökulsþjóðgarðs er marglaga og flóknara en hjá flestum ríkisaðilum. Gæta þarf þess að valdmörk og boðleiðir séu skýr og tryggja að yfirstjórn á málefnum þjóðgarðsins í heild haldist í hendur við ábyrgð á hagkvæmri, skilvirkri og árangursríkri nýtingu þess fjár sem veitt er til starfseminnar. Mikilvægt er að unnið verði gegn þeim veikleikum sem hið marglaga stjórnskipulag hefur reynst fela í sér.“

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að það verði forstjóri og svo verði ellefu manna stjórn og svo verði umdæmisráð fyrir hvert svæði og þess er reyndar gætt að sveitarfélögin hafi ævinlega meiri hluta í þessu. Þetta kann að leiða til glundroða. Ég vil þó ekki vera endilega með hrakspár um það en mér finnst ástæða til að við hugsum það vel hvernig við högum þessari stjórnsýslu. En ég tel engu að síður og fyrst og fremst að með stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu sé stigið mjög mikilvægt og veigamikið skref til verndunar íslenskri náttúru og það sé verið að opna fyrir aðgang almennings að þessu svæði og tryggja þann aðgang. Það sé verið að standa vörð um langtímahagsmuni bæði þjóðarinnar, náttúrunnar og nærliggjandi byggða og það sé verið að koma böndum á ferðamennsku á hálendinu. Þetta yrði náttúrlega langstærsti þjóðgarður í Evrópu og ómælanlegir möguleikar til að markaðssetja og kynna á alþjóðavettvangi sem óröskuð víðerni og dýrmæt náttúrusvæði. Þarna er verið að tryggja varðveislu mikilla náttúruverðmæta.

Frú forseti. Mig langar að enda þetta með því að vitna til þess sem Jón Kalman rithöfundur skrifar í nýlegri blaðagrein þar sem hann fjallar m.a. um þetta mál. Hann segir, með leyfi forseta:

„Hálendið er sameign okkar allra og í stóra samhenginu er fullkomið aukaatriði hvort við eigum kind eða ekki; hvort við höfum farið í leitir eða ekki; kunnum að girða eða ekki. Enginn á hálendið, en við berum öll ábyrgð á því.“