151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Nú hefur Covid-19 veirufaraldurinn herjað á samfélagið í nærri ár með tilheyrandi lokunum og öðrum íþyngjandi sóttvarnaaðgerðum. Geðheilsa þjóðarinnar og andleg líðan vegna faraldursins hefur farið versnandi og er farið að reyna á þolinmæði þjóðarinnar. Nú reynir á okkur öll að vera til fyrirmyndar í öllum sóttvarnaaðgerðum og halda þetta út því að bólusetning er handan við hornið.

Það geta ekki allir farið út að ganga sér til heilsubótar og hvað þá í fljúgandi hálku, eins og verið hefur undanfarið. Líkamsrækt og sund eru mörgum lífsnauðsynleg og því er óskiljanlegt að viðkvæmustu hóparnir sem þurfa á þessari hreyfingu að halda hafi ekki fengið sérmeðferð. Þessi hópur hefði þurft að hafa val um að nýta líkamsrækt og sund, ef hann treystir sér til þess, því að margra bíður ekkert annað en fleiri verkjatöflur og bólgueyðandi lyf í staðinn.

Í þessu samhengi er því óskiljanlegt að ekki skuli vera skylda hjá öllum þeim sem komu til landsins að utan að fara í tvöfalda skimun og fimm til sex daga sóttkví á milli. Að við séum enn þá að leyfa ferðamönnum að velja sjálfviljugir 14 daga sóttkví er fáránlegt og hefur sýnt sig að gengur ekki upp. Ef við hefðum verið ströng á þessu værum við í mjög góðum málum og á svipuðum stað og Taívan og Nýja-Sjáland sem eru til fyrirmyndar í sínum sóttvörnum. Ef við hefðum gert þetta strax væru skólar og verslanir, líkamsræktarstöðvar og sundlaugar og þjóðfélagið í heild sinni í góðum málum.

Því miður hafa mörg mistök verið gerð í sóttvörnum hjá okkur og við fengið slæma útreið vegna þess, en af þeirri bitru reynslu verðum við nú að læra, því er nú verr og miður. Við höfum lært að laga okkar að þessum dæmalausu aðstæðum, t.d. með fjarfundum að heiman, og því losnað við að vera í langan tíma í hægagangi í bifreiðum okkar og er það til bóta.