151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

um fundarstjórn.

[16:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Til að undirstrika það, þá er sem betur fer málfrelsi á þingi þó að mér finnist stundum verið að reyna að takmarka það að einhverju leyti með ákveðinni háttsemi. Þegar ég tala um að málfrelsi sé skert þá er það vegna takmarkana á þingdögum. Við höfum haft takmarkaðan tíma til að ræða stór og mikilvæg mál. Við verðum að hugsa okkar gang hér á þingi, hvernig við ætlum að skipuleggja þetta þannig að við náum lýðræðislegri umræðu um mál. Það er til að mynda fyrst nú á haustdögum sem við erum að ræða um sóttvarnamál.

Það kemur mér líka, svo að ég fari að öðru, spánskt fyrir sjónir ef þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins tekur undir það að forseti skammi þingmenn, tukti þingmenn til fyrir það eitt að segja að ríkisstjórnin eigi að hafa skömm fyrir ákveðna þætti í pólitískum áherslumálum sínum. Mér finnst ekki mikill sómi að því ef það er mat Sjálfstæðisflokksins að skerða eigi frelsi þingmanna til að lýsa skoðun sinni á því hvernig ríkisstjórnin hefur hagað sér hverju sinni. (Forseti hringir.) Mér finnst ríkisstjórnin standa sig ágætlega á sumum sviðum en hörmulega á öðrum. Verð ég vítt fyrir það eða ekki? (Forseti hringir.) Ég hef bara ekki hugmynd um hvort svo verður um alla framtíð.