151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[17:11]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þremur frumvörpum líkt og forseti talaði um: í fyrsta lagi frumvarpi til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, í öðru lagi frumvarpi til laga um Barna- og fjölskyldustofu og í þriðja lagi frumvarpi til laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Þessi frumvörp, eins og forseti gat um, eru tengd vegna þess að seinni tvö frumvörpin tengjast því fyrra, sem er ný heildarlög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Í fyrstu vil ég segja að þær breytingar sem við erum að ræða hér í 1. umr. eru í mínum huga einhverjar stærstu kerfisbreytingar sem ráðist hefur verið í í málefnum barna í seinni tíð. Áður en ég fer að útskýra frumvörpin er mikilvægt að rekja aðdraganda þeirra því að þau frumvörp sem við ræðum hér eru afrakstur vinnu sem byggð er á mjög víðtæku samstarfi og þátttöku fjölmargra aðila, leikinna og lærðra, þar með talið innan veggja Alþingis. Okkur reiknast til að yfir 1.000 manns hafi komið að þessari vinnu með einum eða öðrum hætti. Þessu verkefni var ýtt úr vör á vormánuðum 2018 þegar sá sem hér stendur boðaði til ráðstefnu um snemmtæka íhlutun í málefnum barna. Í framhaldi af þeirri ráðstefnu skrifuðu fimm ráðherrar, auk Sambands íslenskra sveitarfélaga, undir viljayfirlýsingu í þeim tilgangi að brjóta niður múra milli kerfa, bæta þjónustu í þágu barna og skapa barnvænt samfélag. Í kjölfarið var síðan skipaður stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna og í honum störfuðu fulltrúar frá öllum þeim ráðuneytum sem skrifuðu undir umrædda viljayfirlýsingu. Jafnframt var skipuð þverpólitísk þingmannanefnd um málefni barna sem í var boðið fulltrúum allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi. Þingmannanefndin hefur ekki bara tekið virkan þátt í verkefninu þvert á flokka heldur hefur hún haft yfirumsjón með verkefninu og unnið þar af miklum heilindum og fyrir það vil ég þakka.

Hér eru því hv. þingmenn bæði stjórnar og stjórnarandstöðu sem þekkja vel þessa vinnu, hafa tekið þátt í að móta frumvarpið og sýnt vilja til að veita því brautargengi hér á Alþingi. Þetta frumvarp, og þau frumvörp sem við ræðum hér, sýnir okkur að samvinna leiðir ekki alltaf til lægsta samnefnara. Samvinna getur skilað okkur róttækum aðgerðum og róttækum og miklum kerfisbreytingum. Það sýnir þessi vinna. Það sýna þeir þingmenn sem hafa tekið þátt í henni að það er svo sannarlega hægt.

Í febrúar 2019 sendi félagsmálaráðuneytið bréf til ríflega 600 viðtakenda um land allt þar sem vakin var athygli á yfirstandandi vinnu og viðtakendur hvattir til að senda inn ábendingar og bjóða fram þekkingu sína með þátttöku í hliðarhópum á opnum fundum. Eftir að niðurstaða þessara hliðarhópa lá fyrir var boðað til ráðstefnu á nýjan leik í samvinnu við Landssamband ungmennafélaga og hún var haldin í október 2019, undir yfirskriftinni Breytingar í þágu barna. Á þeirri ráðstefnu voru helstu niðurstöður samráðsins kynntar, sem voru m.a. ákall um aukna áherslu á snemmtækan stuðning, afnám hindrana við aðgang að þjónustu og aukið samtal á milli þjónustukerfa. Þar voru jafnframt kynnt áform um það frumvarp sem ég mæli hér fyrir. Frumvarpsdrögin voru síðan, þegar þau voru tilbúin, kynnt fjölmörgum hagsmunaaðilum, þar með talið sveitarfélögum, ríkisstofnunum, samtökum fagfólks, háskólasamfélaginu, Persónuvernd, frjálsum félagasamtökum og einstaklingum var gefið tækifæri til þess að koma að málinu, en það var sett í samráðsgátt stjórnvalda í júní á þessu ári.

Virðulegi forseti. Markmið frumvarpsins er að setja barnið í forgrunn þegar kemur að þjónustu við börn og fjölskyldur. Í samþættingu þjónustu felst aukin samvinna þvert á kerfi og bætt samfella í þjónustu við börn þar sem hagsmunir barna eru hafðir að leiðarljósi. Frumvarpið tekur til allrar þjónustu sem fer fram innan skólakerfisins, í leik-, grunn- og framhaldsskólum, á frístundaheimilum og í félagsmiðstöðvum. Það tekur einnig til þjónustu sem er veitt innan heilbrigðiskerfisins, í heilsugæslu, á heilbrigðisstofnunum, á sjúkrahúsum og félagsþjónustu sem er veitt innan sveitarfélaga, barnaverndarþjónustu og þjónustu við börn með fatlanir, og jafnvel lögreglu, svo dæmi séu til tekin. Frumvarpið gerir jafnframt mögulegt að samþætta aðra þjónustu sem börn njóta, t.d. í íþrótta- og æskulýðsstarfi.

Í frumvarpinu er í fyrsta sinn kveðið á um að öll þjónusta í þágu barna, allra þeirra aðila sem nefndir voru áðan, skuli vera stigskipt í þrjú stig. Það þýðir að við ætlum að taka upp þriggja laga þjónustukerfi við börn þvert á alla aðra þjónustu og það verða allir aðilar að starfa innan þessa þriggja laga kerfis. Samhliða þessu er verið að þróa tæknilausnir, og búið að eyrnamerkja á þriðja hundrað milljónir, verði fjárlagafrumvarp næsta árs samþykkt og þetta frumvarp að auki, í verkefni sem farið verður í árið 2021 til að auðvelda þessa samvinnu og auðvelda þetta samstarf. Með þessari stigskiptingu eru samhliða settir fram samræmdir mælikvarðar sem lýsa stigskiptingu þjónustu í þágu barna í þessi þrjú stig en ráðherrum falið að útfæra nánar stigskiptingu þjónustu á sínu málefnasviði, en þó innan þeirrar grunnhugsunar sem verið er að ræða í þessu frumvarpi. Með samræmdri stigskiptingu fæst þá yfirsýn yfir þjónustukerfi sem veita börnum þjónustu. Stigskiptingu og yfirsýn fylgja því stórauknir möguleikar á því að færa þungann af þjónustu við börn í snemmtækan stuðning og grípa fyrr inn í með stuðningi allra þeirra kerfa sem vinna að því að styðja börn og fjölskyldur þeirra.

Við erum vön svona hugarfari en ekki í þjónustu við einstaklinga. Við þekkjum það í almannavörnum, þegar vá steðjar að í íslensku samfélagi, hvort sem það eru eldgos, snjóflóð, óveður eða kórónuveirufaraldur, að allir aðilar koma saman í Skógarhlíðinni og mynda þar samhæfingarmiðstöð almannavarna. Þá koma allir aðilar saman, brjóta niður múra, vinna þvert á kerfi. Með þessu frumvarpi erum við að segja: Barn í vanda á að geta notið sömu þjónustu og almannavarnir vinna eftir, þ.e. að við vinnum saman að hagsmunum þess.

Í frumvarpinu er líka mælt fyrir um að fjölskyldum og börnum sem þurfa snemmtækan stuðning sé tryggður aðgangur að sérstökum tengilið í nærumhverfi barnsins. Tengiliður er oftast starfsmaður heilsugæslu eða skóla eftir því á hvaða aldursstigi viðkomandi barn er. Tengiliður veitir upplýsingar og aðstoð vegna fyrsta stigs þjónustu þvert á kerfi. Hann skipuleggur og fylgir eftir samþættingu. Ef barn hefur þörf fyrir annars eða þriðja stigs þjónustu kemur tengiliður upplýsingum um það á réttan stað. Ef börn þurfa fjölþættan stuðning á öðru eða þriðja stigi er barni og fjölskyldu þess tryggður aðgangur að málstjóra hjá félagsþjónustu sveitarfélaga. Málstjóri veitir ráðgjöf, upplýsingar og aðstoð vegna annars stigs þjónustu þvert á kerfi, sama hvort um er að ræða heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu, þjónustu sem veitt er af sveitarfélagi eða ríki. Hann ber jafnframt ábyrgð á gerð stuðningsáætlunar og að leiða stuðningsteymi og fylgir eftir þjónustu sem er veitt í samræmi við stuðningsáætlun. Tölvulausnir sem verið er að þróa eru liður í því að aðstoða við nákvæmlega það sem gerist í starfi þessara málstjóra.

Í frumvarpinu er því gert ráð fyrir að börn og fjölskyldur séu miðpunktur þjónustu með tengilið og málstjóra sér til aðstoðar sem sjá um að leiða mál þeirra áfram í samstarfi við viðkomandi barn og viðkomandi fjölskyldu. Að ósk barns eða fjölskyldu koma tengiliðir og málstjórar á virku samstarfi á milli þeirra sem veita barni þjónustu. Í samstarfinu felst m.a. að þessum þjónustuveitendum er heimilt að skiptast á persónuupplýsingum um aðstæður barnsins.

Frumvarpið gerir ráð fyrir tveimur nýjum stofnunum félagsmálaráðuneytisins sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna í þessari löggjöf. Þetta eru Barna- og fjölskyldustofa og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála og mun ég fara betur ofan í það hér á eftir en við erum að mæla fyrir þeim málum hér samhliða.

Í frumvarpinu er líka gert ráð fyrir að stutt verði við samþættingu með samráði, stefnumótun og áætlanagerð á vettvangi ríkis og sveitarfélaga með þátttöku fagfólks og með þátttöku barnanna sjálfra. Jafnframt verður stutt við samþættingu með samræmdri gagnaöflun um líðan og velferð barna. Þannig verður hægt að meta hvernig þær aðgerðir sem frumvarpið mælir fyrir um hafa áhrif á stöðu barna hér á landi, bæði til skamms tíma og til langs tíma.

Frumvarpinu er ætlað að hafa þau áhrif að stuðla að farsæld barna og fjölskyldna til framtíðar, styðja við þroska barna og bæta líðan þeirra. Við undirbúning frumvarpsins fékk félagsmálaráðuneytið jafnframt ráðgjafa til að gera mat á hagrænum og fjárhagslegum áhrifum þessara kerfisbreytinga. Unnin var ítarleg greining á kostnaði og ávinningi þess að gera breytingar á löggjöf með þeim hætti sem hér er lýst með áherslu á snemmtækan stuðning og að gripið sé snemma inn í með viðbrögðum við áföllum sem börn geta orðið fyrir. Það er ljóst að það fjármagn sem þarf til þessa verkefnis er með arðbærustu fjárfestingum sem hægt er að ráðast í í íslensku samfélagi. Fjárhagslegur ávinningur þessara breytinga er á pari við fjárfestingar eins og Kárahnjúkavirkjun, Keflavíkurflugvöll og aðrar arðbærar fjárfestingar sem samfélagið okkar hefur ráðist í. Það eru ekki orð félagsráðgjafa eða félagsmálaráðherra, það er þekking sem komin er og kynnt hefur verið út úr hagrænu mati sem unnið er á hagrænum grunni.

Virðulegur forseti. Fyrstu ár þessarar innleiðingar hlýst af henni kostnaður eins og ég nefndi hér áðan, bæði varðandi innleiðingu og síðan varðandi þjónustukerfin sem þarf að efla. En eftir ekki svo langan tíma vegur fjárhagslegur ávinningur þyngra og svo mun þyngra, ekki hvað síst þegar sú kynslóð sem fær þjónustu samkvæmt frumvarpinu frá fæðingu kemst á fullorðinsár síðar meir þegar líður á þessa öld. Reiknaður fjárhagslegur ábati af þeim breytingum sem kynntar verða hér í dag í þessum frumvörpum hefur engin neikvæð áhrif, hvorki á umhverfi né fólk, og fjárhagslegur ávinningur af þeim leiðir til þess að íslenska ríkið getur vart farið í betri fjárfestingu.

Eftir alla þá vinnu sem liggur að baki frumvarpinu er mjög ánægjulegt að geta mælt fyrir því hér á Alþingi Íslendinga. Ég trúi því að þetta frumvarp, og frumvörpin sem ég ætla að fara yfir á eftir, muni gjörbreyta aðstæðum barna og fjölskyldna. Þau eru jafnframt arðbær fjárfesting til framtíðar og þau leggja nýjan grunn að þjónustu við börn og barnafjölskyldur. Þau gera það að verkum að við þurfum að beita nýrri hugsun. Við erum að ögra okkur sjálfum við að beita nýrri hugsun þegar kemur að þjónustu við börn og barnafjölskyldur. En ég vil líka segja, áður en ég fer í hin frumvörpin, að þetta er ekki lokaskref í þessari vegferð. Við erum bara að skapa grunninn hér. Síðan þurfum við að byggja alla þjónustuna á þessari hugsun og það er verkefnið sem síðan tekur við, þ.e. að byggja hús ofan á þann grunn sem við erum að skapa hér.

Eins og komið var inn á eru önnur frumvörp sem þessu tengjast. Lagt er til að sett verði á fót ný stjórnsýslustofnun sem mun bera heitið Barna- og fjölskyldustofa. Sú stofnun mun taka við stærstum hluta þeirra verkefna sem nú er sinnt af Barnaverndarstofu og þar er einnig um að ræða ný heildarlög. Með því frumvarpi er verið að víkka út ráðgjafar- og stuðningshlutverk stofnunarinnar. Jafnframt er ætlunin að aðskilja eftirlit frá verkefnum nýrrar Barna- og fjölskyldustofu með því að fela eftirlit og leyfisveitingar, sem Barnaverndarstofa hefur sinnt, sérstakri eftirlitsstofnun sem mælt er fyrir um í þriðja frumvarpinu.

Vonir standa til þess að um öfluga stofnun verði að ræða þar sem víðtæk þekking á málefnum barna og þjónustu við þau og fjölskyldur þeirra eykst jafnt og þétt. Verði frumvarpið að lögum mun Barnaverndarstofa verða lögð niður í þeirri mynd sem hún er og þessi nýja Barna- og fjölskyldustofa verða stofnuð á þeim grunni. Verkefni þessarar nýju stofnunar verða, eins og áður sagði, fjölbreytt og þau munu eiga það sameiginlegt að tengjast þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Hér er um að ræða fjölbreytt verkefni og því mikilvægt að sett verði sérlög um þessa stofnun. Verði frumvarp til laga, um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, sem ég mæli hér fyrir, að lögum er nauðsynlegt að til staðar sé stofnun sem veitir ítarlega ráðgjöf og stuðning við þá samþættingu á milli kerfa sem frumvarpið kveður á um. Barna- og fjölskyldustofu er ætlað það hlutverk og haldast frumvörpin því í hendur hvað það snertir.

Meginefni frumvarpsins er að setja samræmdar reglur um verkefni Barna- og fjölskyldustofu við veitingu þjónustu í þágu barna. Starfssvið stofnunarinnar nær til þeirrar nýju þjónustu sem m.a. er mælt fyrir um í frumvarpi til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, í barnaverndarlögum, í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, svo að einhver séu nefnd. Meginhlutverk stofnunarinnar verður stuðningur við stjórnvöld sem veita þjónustu í þágu barna. Barna- og fjölskyldustofa mun m.a. geta veitt sveitarfélögum ráðgjöf í einstaklingsmálum, t.d. varðandi barnavernd og samþættingu þjónustu.

Samhliða þessu verkefni er mælt fyrir um í frumvarpinu að Barna- og fjölskyldustofa sinni víðtæku þróunar-, rannsóknar- og fræðslustarfi. Annað meginhlutverk nýrrar Barna- og fjölskyldustofu verður uppbygging og yfirstjórn heimila, stofnana og sérhæfðra úrræða fyrir börn. Hér verður byggt á sterkum grunni Barnaverndarstofu sem hefur áralanga og farsæla reynslu af slíkum verkefnum á sviði barnaverndar.

Í frumvarpinu er jafnframt kveðið á um það hlutverk nýrrar Barna- og fjölskyldustofu að halda utan um vinnslu upplýsinga og starfrækja gagnagrunna og stafrænar lausnir sem mun þurfa til að styðja við þessa nýju hugsun. Mikilvægt er — og það lýtur m.a. að þeim tölvukerfum sem þarf að þróa til að tryggja þessa samþættingu, og búið er að tryggja fjármagn til á næsta ári, eins og ég gat um í máli mínu áðan — að vel sé staðið að þessu verkefni, enda hefur reynslan sýnt, m.a. í barnavernd, að skortur á samhæfðum stafrænum lausnum hefur miklar neikvæðar afleiðingar á vinnslu mála.

Þetta umrædda frumvarp felur í sér, eins og ég sagði, setningu nýrra heildarlaga. Samhliða eru gerðar breytingar á lögum til að markmið frumvarpsins verði að veruleika. Að koma á fót stofnun sem þessari er mikið framfaraskref í þjónustu við börn, hvar sem þau eru stödd á landinu. Vonir standa til þess að með slíkri stofnun verði þjónusta við börn af meiri gæðum og við munum sjá gæta aukinnar samræmingar milli landsvæða. Öflug miðlæg stofnun er til þess fallin að tryggja jafnræði milli barna og stuðla að því að börn í landinu fái að vaxa og dafna með bestu hagsmuni þeirra að leiðarljósi.

Ég legg áherslu á að þessi nýja Barna- og fjölskyldu stofa gegnir mikilvægu hlutverki við samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og tengist frumvarpi um það efni því órjúfanlegum böndum. Það er því mikilvægt, eins og forseti gat um í upphafi, að þau verði rædd saman í hv. velferðarnefnd.

Síðan er það þriðja frumvarpið sem er frumvarp til laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Í því frumvarpi er lagt til að sett verði á fót ný stofnun, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Grunnur stofnunarinnar er Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar sem í dag er ráðuneytisstofnun sem starfar sjálfstætt undir félagsmálaráðuneytinu. Ný stofnun mun líka taka við verkefnum frá öðrum stjórnvöldum, aðallega verkefnum sem tengjast eftirliti frá Barnaverndarstofu. Frumvarpið felur í sér að sett verði ný heildarlög um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.

Markmið þessa frumvarps er að koma eftirlitsverkefnum á eina hendi og tryggja að sá eftirlitsaðili hafi ekki önnur verkefni með höndum. Með frumvarpinu er lagt upp með að sameina eftirlit með gæðum velferðarþjónustu. Frumvarpið felur í sér samræmdar reglur í stað þeirra ólíku reglna sem nú gilda um eftirlit með þjónustu á málefnasviði félagsmálaráðuneytisins. Verði frumvarp til laga, um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, sem ég mælti fyrir áðan, auk frumvarps til laga um Barna- og fjölskyldustofu, að lögum er nauðsynlegt að til staðar sé stofnun sem hefur eftirlit með gæðum umræddrar samþættingar og þess starfs sem þarna fer fram. Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála er ætlað það hlutverk og haldast frumvörpin því í hendur hvað það snertir.

Virðulegur forseti. Meginefni frumvarpsins felst í heildstæðum og samræmdum reglum um eftirlit með gæðum velferðarþjónustu og samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Eitt af meginhlutverkum Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála er að afgreiða rekstrarleyfi til einkaaðila. Í núgildandi lagaumhverfi gilda mismunandi reglur um leyfisveitingar vegna velferðarþjónustu. Hér er því um að ræða einföldun og samræmingu reglna. Frumvarpið gerir ráð fyrir að allir einkaaðilar, sem veita þjónustu sem lýtur að eftirliti stofnunarinnar, þurfi að hafa rekstrarleyfi. Jafnframt eru í frumvarpinu ýmsar reglur sem tengjast leyfisveitingum, þar með talið heimildir til að veita bráðabirgðarekstrarleyfi. Annað af meginhlutverkum stofnunarinnar er að hafa virkt eftirlit með gæðum velferðarþjónustu. Samkvæmt frumvarpinu er megináhersla lögð á frumkvæðiseftirlit sem getur m.a. farið fram með vettvangsheimsóknum. Í frumvarpinu er jafnframt mælt fyrir um niðurstöður eftirlitsins. Í þessu frumvarpi er jafnframt mælt fyrir um að stofnunin taki við og vinni úr kvörtunum yfir gæðum og þjónustu. Mælt er fyrir um að ný Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála geti beitt viðurlögum ef gæði þjónustu sem lýtur að eftirliti stofnunarinnar eru ekki fullnægjandi. Annars vegar er um að ræða heimildir til afturköllunar rekstrarleyfa og hins vegar til að beita sveitarfélög dagsektum sem ekki fara að umræddum lögum. Frumvarpið felur í sér setningu nýrra heildarlaga. Samhliða eru gerðar breytingar á öðrum lögum til að markmið þessa frumvarps verði að veruleika líkt og varðar fyrri frumvörp.

Með hliðsjón af því sem ég hef rakið hér um umrædd þrjú frumvörp vil ég segja að ég er sannfærður um að nái þau fram að ganga hér á Alþingi, og okkur takist vel til varðandi innleiðinguna, sem fer í hönd á árinu 2021, og okkur takist jafnframt að halda þeirri þverpólitísku nálgun sem hefur ríkt í þessu máli fram yfir næstu alþingiskosningar, eða þar til gildistakan verður, sem er í byrjun árs 2022, er ég sannfærður um að þessar breytingar muni verða gríðarlega mikilvægar, ekki bara fyrir börn og fjölskyldur þessa lands heldur fyrir hagkerfið í heild sinni eins og efnahagslegar greiningar frumvarpsins sýna.

Virðulegi forseti. Ég hlakka til að hlýða hér á umræður sem fram undan eru. Að þeim loknum legg ég til að þessum þremur málum verði vísað til hv. velferðarnefndar Alþingis.