151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[17:34]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að hrósa hæstv. ráðherra fyrir þetta mál og þau mál sem kynnt voru hér og ég held og vona að leiði til þess að við bætum þjónustu við börn, öll börn, í hvaða aðstæðum sem þau eru hverju sinni. Það var svolítið magnað að vinna að þessum málum af því að alveg sama hvaða útgangspunkt við í nefndinni höfðum þá rákum við okkur í raun á þá þröskulda sem kerfið hefur búið til, því miður. Það sem ég hlakka kannski mest til að sjá virka er þetta kerfi okkar. Mig langar að byrja á því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé bjartsýnn á að þetta verði að raunveruleika. Við samþykktum í fyrravor lög frá Alþingi sem segja að sálfræðiþjónusta eigi að vera hluti sjúkratryggingakerfisins. Þannig ætlum við að tryggja betri geðheilsu fyrir almenning á Íslandi. Áður en sólarhringurinn var liðinn hafði hæstv. fjármálaráðherra sagt að það væru engir peningar í kassanum fyrir slíku. Af því tilefni vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Telur hann að þetta verði að veruleika?