151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[17:46]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir svörin. Ég er innilega sammála honum í því að þetta verður stórverkefni. Jú, að klífa Everest, hann verður sennilega fyrstur og efstur, hinir eiga að fylgja á eftir. Ég vona að allt öll keðjan virki. Það kemur skýrt fram í þessu frumvarpi að hver króna sem eytt er í þetta skilar örugglega 100 kr. til baka í framtíðinni. Þess vegna spyr ég mig að því af hverju við setjum t.d. ekki meiri fjármuni í fjárlögum núna í nútímann, vegna þess að við vitum að allt sem við setjum í málefni barna skilar sér margfalt til baka í framtíðinni. Það tekur einhvern tíma en ágóðinn er svo mikill. Ég hef heyrt að fólk lendir í alls konar erfiðleikum með börnin sín. Það spyr hvers vegna það komist ekki að, hvers vegna það fái ekki þá þjónustu sem sá næsti fær. Þetta eru endalausar spurningar, líka í þessum hópi er sérstaklega viðkvæmur, langveik börn og fatlaðir. Þau þurfa sérstakan stuðning. Því miður er staðan sú að þau fá ekki þann stuðning í dag sem þau þurfa á að halda. Ég vona svo heitt og innilega að þetta komist fljótt á. Þess vegna sagði ég að ég hefði viljað að þetta hefði verið komið í gær, þá værum við komin af stað með þetta fyrir löngu. En það er gott að vita að þetta er að byrja. Ég vona heitt og innilega að ráðherra sjái einhverja leið til að láta þetta virka mjög fljótt.