151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[18:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Nú er hæstv. ráðherra náttúrlega kominn í útúrsnúninga og alger óþarfi að skella því fram að ég ætli að standa í vegi fyrir því að veita fjármuni í verkefnið. Ég var ekkert að tala um það, alls ekki. Þetta er illa fram sett hjá hæstv. ráðherra þegar hann hefur fjallað hér um gott mál og ég er búinn að hrósa honum fyrir það, að koma svo hingað og skella því á mig að ég ætli að standa í veginum. Þetta eru bara ósannindi, hæstv. ráðherra, og þú ættir að biðjast afsökunar á þessum ummælum þínum, ekkert öðruvísi en það.

Alla vega vildi ég bara segja það, sitjandi í fjárlaganefnd, að við stöndum frammi fyrir gríðarlegri skuldasöfnun. Það er ekki jákvætt að koma fram með væntingar um gott mál — og þetta er gott mál, ég ætla alls ekki að draga úr því — en síðan þegar fram í sækir sjáum við fram á að við höfum hreinlega ekki efni á að fjármagna það með þeim hætti sem lagt er upp með.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Er hægt að hagræða á einhverjum öðrum sviðum í þeim málaflokkum sem heyra undir hann til þess að reyna að greiða fyrir því að málið fái alveg fulla fjárheimild svo að það verði sem fyrst að veruleika? Við þurfum að skoða það líka. Maður spyr sig líka: Er eitthvað af þessum ágætu hugmyndum og málum hér inni, tengiliðir, stöðugildi málstjóra o.s.frv., sem hægt er að setja undir einhvern annan hatt eða er hægt að nýta þá starfskrafta sem við höfum þegar í þeim málaflokki sem heyrir undir börn? Allt þetta hlýtur að verða að skoða innan nefndarinnar.

En ég vil bara segja að lokum að ég er fylgjandi þessu máli og þetta er gott mál. Það þýðir ekki fyrir hæstv. ráðherra að koma hingað inn með fullyrðingar sem eru algjörlega út í hött, um að maður standi í vegi fyrir þessu (Forseti hringir.) þegar maður er í fjárlaganefnd og er bara að spyrja um kostnað. Herra forseti. Mér fannst bara rétt að fara yfir þetta mál.