151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[18:05]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að óska hæstv. ráðherra til hamingju með þessi góðu mál. Ég þakka fyrir að hafa fengið að taka þátt í þeirri mikilvægu vinnu, sem fólst í því að vera fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í þverpólitískri þingmannanefnd sem hefur unnið þá vinnu, sem snýst fyrst og fremst um börn. Ég tel að vinnan hafi það að meginmarkmiði að breyta menningunni hvað það varðar hvernig við hlúum að börnum. Til þess að breyta menningunni þarf að fá marga aðila til að ganga í sama takti og hafa sömu markmið. Ég held að við séum komin vel á veg með það. Þessi vinna hefur gert það að verkum að allir aðilar eru farnir að tala saman í stað þess að hver vinni í sínu horni og tuði um það hvað þeir hefðu getað gert betur eða hvernig þetta virkar allt saman. Við erum farin að tala í lausnum og ræða málin og með því einu að það hafi tekist held ég að stór sigur sé nú þegar unninn, að koma þessu samtali af stað, fá aðila til að sættast á að tala saman og vinna að sameiginlegum tillögum. Það er hinn stóri sigur sem nú þegar hefur unnist. Næsta stig er að innleiða hluta af þeim aðgerðum sem aðilar hafa sameinast um sem sjást í þessum þremur frumvörpum. Það er bara smáhluti af þessari vinnu og ég vona að það muni ganga vel.

Gríðarlegt samráð fór fram, eins og hæstv. ráðherra lýsti í framsöguræðu sinni, og mörg sjónarmið fengust fram og reynt var að kalla eins marga og mögulegt var að vinnunni. Það gekk bara vel, myndi ég segja. En nú er einhvers konar niðurstaða að birtast, samantekt á þessari vinnu, hvert við viljum stefna. Það verður gaman að sjá hvaða umsagnir, athugasemdir og annað slíkt við fáum við þau frumvörp sem eru hér í meðförum þingsins. Við fáum þá vonandi enn fleiri sjónarmið fram og enn fleiri ábendingar til að takast á við. Í grunninn er það sem við erum að stefna að, þessi menningarbreyting sem við erum að vinna að hér, þessi snemmtæka íhlutun og forvarnir. Um leið og einhver flögg birtast eða eitthvað er ekki eins og best verður á kosið varðandi börn, æsku þeirra og umhverfi, verður hægt að bregðast við á þann hátt að við fáum heildarsýn yfir stöðuna. Út á það gengur líka stigskiptingin, til að innleiða forvarnirnar, að við sjáum á ýmsum mælaborðum, sem mikið hefur verið rætt um í þessu máli, með því að safna upplýsingum og ná betri yfirsýn yfir málaflokkinn, hvar skórinn kreppir þannig að hægt sé að byrgja brunninn áður en barnið fellur ofan í hann. Til að geta haft markvissar forvarnir þurfum við að hafa vissar upplýsingar til staðar til að geta unnið að forvörnum og komið í veg fyrir að flögg rísi eða að börn þurfi að fara inn í mjög óæskilegt umhverfi eða annað slíkt. Út á það gengur þessi stigskipting, að hafa fyrsta stigs þjónustu og þar inni eru forvarnirnar og snemmtæka íhlutunin. Svo er það annað stigið sem þarf þá kannski einhvern smástuðning og annað slíkt og svo þriðja stigið en maður hefur oft á tilfinningunni að öll málefni barna snúist um það í dag, en það eru meðferðir og greiningar og frekari íhlutun. Því miður er það upplifun marga að þar sé fyrst og fremst brugðist við. En auðvitað er fullt af góðum hlutum að gerast í forvörnum og á fyrsta stiginu. Þetta er mismunandi eftir skólastofnunum, eftir sveitarfélögum og eftir íþróttafélögum. Þetta er misjafnt en við þurfum að draga úr því að börn þurfi að fara úr fyrsta stigs þjónustu yfir í annars stigs þjónustu og draga enn meira úr þriðja stigs þjónustu. Þannig held ég að allir græði, og þetta snýst allt um fjármagn, en auðvitað eru það börnin sem græða mest og það er það sem skiptir mestu máli í þessu.

Ég kem inn á fjármagnið og í andsvörum við hæstv. ráðherra hafa komið fram áhyggjur af því hvort þetta sé fjármagnað. Ég verð að segja eins og er að ég hef minnstar áhyggjur af því öllu, það eru smápeningarnir í þessu öllu. Mér finnst að ekki eigi að þurfa að ræða það heldur eigum við miklu frekar að horfa á það hvernig fjármagnið hefur verið vandamálið í kerfinu hingað til, hvernig fjármagnið hefur orðið til að mynda gráu svæðin á milli sveitarfélaganna og ríkisins. Úrræðin hafa, eins og ég sagði hér áðan, svo mörg verið á þriðja stiginu og það fer eftir tegund vandamáls hvort það eru sveitarfélögin eða ríkið, einstakar stofnanir ríkisins, sem finnst þær alltaf vera sveltar af fjármagni, og það er eins með sveitarfélögin, sem eiga að borga. Það hefur oft orðið til þess að börn fá ekki þá þjónustu sem þau eiga að fá út af því að deilur eru á milli ríkis og sveitarfélaga um það hver eigi að borga. Sú deila birtist í því hvaða úrræðum eigi að beita eða hvernig greining eigi að vera, af því að það er það sem endanlega ræður því hver borgar. Það ræðst ekki af því hvað barninu er fyrir bestu, sem skiptir öllu máli. Það er gríðarlega mikilvægt að í þessari miklu vinnu, eigi hún að ganga upp, verði þeim gráu svæðum útrýmt og það liggi miklu skýrar fyrir hver beri ábyrgð á hverju. Það verður þá jafnvel að hafa einhverjar afleiðingar ef menn bera ekki ábyrgð á því sem þeir eiga að bera ábyrgð á, en þetta þarf að vera á hreinu. Við megum samt passa okkur á því að búa ekki til of mikið kerfi, þannig að það verði slagsmál um hver eigi að veita þjónustuna.

Til þess að koma í veg fyrir þessi gráu svæði og stuðla að því að einhver beri ábyrgðina er talað um gagnagrunna sem eigi að flagga upplýsingunum. Þar þurfi að huga vel að persónuvernd og trúnaðarsambandi fagfólks og skjólstæðinga og öðru slíku. Þetta hefur mikið verið rætt í þverpólitísku nefndinni en á að öllum líkindum einnig eftir að koma upp í umræðunni í þinginu. Þá voru líka settir á svokallaðir málstjórar sem eiga að taka á málinu og bera ábyrgð á því að barnið fái þjónustu og að kerfin fari ekki að rífast. En til þess að þurfa kannski ekki að kljást við þetta, og að það reyni sem sjaldnast á þessa málstjóra og á þessar deilur, þurfum við að tryggja að úrvinnslan úr því ferli sem við búum til hér verði þannig að foreldrarnir og fjölskyldurnar sjálfar séu hinir raunverulegu málstjórar, foreldrarnir hafi valdið í því hvað barninu sé fyrir bestu. Þau þekkja barnið og aðstæður þess best og því er gríðarlega mikilvægt, alveg frá upphafi og út í gegn, að foreldrar verði hinir raunverulegu málstjórar. Þá þurfum við líka að hafa í huga að foreldrarnir geta þurft aðstoð, það er ekki alltaf barnið sem þarf aðstoðina eða úrræðið, það geta verið foreldrarnir eða fjölskyldan eða aðrir í nærumhverfi barnsins. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli og það er kannski næsta stig eftir að þetta er allt komið af stað, þ.e. að ákveða hvernig við tryggjum að næg úrræði verði í boði.

Við þurfum að tryggja aðgengi að úrræðum, að það þurfi ekki slagsmál við kerfið til að komast í úrræðin. Þetta er allt mikilvæg vinna til að þetta gangi allt upp og þar þurfum við að hugsa um tryggt aðgengi, fjarþjónustu, bestu úrræðin við öllum þeim fjölbreytta vanda sem börn glíma við, sem getur verið margvíslegur. Við þurfum líka að huga að aðgengi fyrir nýsköpun og leyfa nýju fólki að komast að, ekki bara treysta á þau gagnrýndu kerfi sem við erum með nú þegar og einhverjar stofnanir ákváðu að nota og ætla svo að rífast um hvaða kerfi er best. Það sem virkar fyrir einn þarf ekki endilega að virka fyrir þann næsta. Við þurfum því að tryggja fjölbreytni í úrræðunum og gott aðgengi að þeim og til að tryggja nýsköpun þá verður líka að vera einhver hvati fyrir fólk sem hefur metnað í þessu til að fara af stað. Það má ekki verða þannig að mikil vinna sé lögð í nýsköpun og að búa til úrræði en svo af því að kerfið fann ekki upp úrræðið sjálft sé það ekki velkomið inn í kerfið. Þetta er eitt stórt atriði sem þarf að passa. Eins og ég talaði um í störfum þingsins í gær þá held ég að það sé lykilatriði í þessu að fjármagn fylgi barni. Ef hægt er að búa til þannig kerfi þá minnka þessi gráu svæði og það hjálpar foreldrum að vera sinn málstjóri. Það eykur líkur á að þjónustan verði veitt fyrr og þá eru meiri líkur á að fólk haldist á fyrsta stiginu. Þá er orðinn hvati fyrir fólk að búa til úrræðin, reyna að vinna í því að búa til lausnir við þeim vandamálum sem við búum við, þeim áskorunum sem mæta börnum í breyttum heimi. Ég held að þetta sé alveg gríðarlega mikilvægt atriði í þessu.

Til að taka þetta aðeins saman þá eru þetta mörg stig. Þetta er stórt og mikið olíuskip sem þarf að snúa og hæstv. ráðherra á mikið hrós skilið fyrir að leggja af stað og koma þessari vinnu í gang. Stórsigur er nú þegar unninn með þessu samráði og samtali og þessum sameiginlega áhuga sem búið er að vekja hjá fólki til að stefna í þessa átt. Svo erum við með tæknileg atriði til að innleiða þetta og fylgja því eftir í frumvörpunum og verður gaman að takast á við það í hv. velferðarnefnd og fá fram mismunandi sjónarmið. Við þurfum líka að tryggja að sú nýja stefna sem við höfum innleitt gangi upp og það verðum við að gera með góðu aðgengi að fjölbreyttum úrræðum þar sem foreldrar geta stutt við börnin sín og verið hinir raunverulegu málstjórar. Þannig held ég að við getum náð gríðarlegum árangri og það orðið til þess að heilbrigðari og hamingjusamari kynslóðir vaxi úr grasi. Það mun skila samfélaginu gríðarlega miklu, þannig að þessar nokkru krónur sem deilt var um hér áðan koma margfalt til baka takist þetta. Ef við fáum heilbrigðara samfélag og meiri velsæld mun kostnaður við þennan málaflokk dragast töluvert saman og krafturinn og hagvöxturinn mun margfaldast með öflugri kynslóðum. Ég hlakka til að takast á við þetta mikilvæga og góða mál og hlakka til að heyra mismunandi sjónarmið um það hvernig við getum gert enn betur.