151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[18:40]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Er hægt að meta farsæld til fjár? Já, það er hægt af því að hægt er að meta góða líðan, hamingju og samfélagið allt til fjár. Það er einfaldlega þannig. Ansi snemma í þessu ferli þingmannanefndar um málefni barna kölluðum við eftir því að öll vinna okkar í nefndinni yrði metin til fjár af því að þannig næðum við að setja á borðið að þetta væri til einhvers fyrir þá sem hugsa þetta mögulega út frá hagrænum viðmiðum og út frá ríkissjóði og þeim ávinningi sem þetta hefði eingöngu fyrir þann ágæta sjóð.

Lykilorðin í einu af þeim frumvörpum sem við erum að fjalla um hér í dag, frumvarpi til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, er samþætt þjónusta og án hindrana. Fljótlega eftir að starfið hófst komu allir þingmenn í þingmannanefndinni saman og fóru að velta fyrir sér sínum óskamálum og ég þykist vita að hæstv. ráðherra hafi líka verið með óskamál á borði sínu. Þeir starfsmenn sem komu að vinnunni voru líka með óskamál og öll vorum við að velta þessu fyrir okkur út frá sérsviðum okkar af því að það skiptir í rauninni ekki máli hvaðan við komum inn í þessa vinnu. Við höfum verið börn sjálf og eigum annaðhvort börn eða þekkjum börn eða höfum komið að málefnum barna einhvers staðar á lífsleiðinni í störfum okkar. Í þingmannanefndinni var mjög fjölbreyttur hópur. Þarna var manneskja úr skólakerfinu, úr löggæslu, manneskja sem hefur unnið inn í réttarvörslukerfinu, í barnavernd, öryrki, manneskja af sveitarstjórnarstiginu o.s.frv., o.s.frv. Þarna voru mjög ólíkir aðilar sem komu og vildu setja lóð sín á vogarskálarnar í þessari vinnu.

Við einblíndum þess vegna öll í fyrstu skrefunum á það hvað við vildum að yrði betra fyrir börn. En fljótlega áttuðum við okkur á því að það sem gerðist alltaf, alveg sama hvert við fórum, var að kerfið þvældist fyrir. Þar voru þröskuldarnir, kerfið sjálft. Þrátt fyrir að við værum alltaf með barnið í forgrunni þá voru þröskuldarnir þar. Kerfið sem við höfum byggt upp, sem er mannanna verk, er að þvælast fyrir. Það talar illa saman þrátt fyrir allt þetta frábæra starfsfólkið sem er úti um allt kerfið. Þar verða flöskuhálsarnir og þess vegna tel ég að þetta séu þau atriði sem skipta mestu máli þegar við erum að fara að smíða þennan afrakstur: Er þetta samþætt þjónusta við hæfi án hindrana?

Eins og kemur fram í 1. gr. skulu þeir sem bera ábyrgð samkvæmt þessum lögum fylgjast með velferð og farsæld barna og foreldra og meta þörf þeirra fyrir þjónustu. Ef þeir sem fylgjast með, sem eru skilgreindir í lögunum, átta sig á því að þörf er á þjónustu ber þeim strax að bregðast við til þess að tryggja snemmbæra íhlutun, sem er mikið notað orð núna, en það skiptir máli að fólk velkist ekki um í kerfinu árum saman og enginn bregðist jafnvel við. Í frumvarpinu um samþættingu þjónustu er einmitt tekið fram að ákveðnir aðilar beri ábyrgð á hverju stigi fyrir sig og þannig er þeim gert að bregðast við þörf barna og foreldra fyrir þjónustu og gera það á skilvirkan hátt um leið og þörfin vaknar eða kviknar. Og ef þörf er fyrir þjónustu þurfa allir að tala saman, þá þarf allur björgunarhringurinn að koma saman að borðinu og tala saman til að koma í veg fyrir það sem á sér því miður of oft stað núna, að barnið falli ítrekað niður á milli kerfa og gleymist, eða kannski ekki gleymist heldur að enginn viti að þjónustan hafi fallið niður einhvers staðar.

Kerfið okkar er auðvitað mjög dýrt. Það kostar mikla peninga. Það kostar auðvitað enn meira fé þegar það virkar ekki. Þess vegna skiptir svo miklu máli að tryggja þó ekki væri nema þetta, þessa fléttu sem myndar björgunarhring utan um barnið sjálft og fjölskylduna alla. Með öðrum orðum er verið að skýra mjög vel alla verkferla, skýra hver ber ábyrgð á hvaða þjónustu. Einnig er verið að skýra vel hver beri ábyrgð á að hafa eftirlit með þjónustunni. Í dag er Barnaverndarstofa ráðgefandi aðili, skapandi aðili þegar kemur að úrræðum og eftirlitsaðili. Ég held að við hljótum öll að geta verið sammála um að það er óheppilegt að setja öll þau verkefni á sama skrifborðið. Þess vegna er gott að við séum hér að búa til Barna- og fjölskyldustofu sem á þá að veita ráðgefandi og styðjandi þjónustu við alla þjónustuaðila. Svo erum við líka með frumvarp um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála sem á einmitt að vera eftirlitsaðili, varðhundur sem tryggir að verið sé að veita fullnægjandi þjónustu, hún sé í lagi og að verið sé að grípa börnin.

Það skiptir mjög miklu máli, finnst mér, í þessu frumvarpi varðandi samþættingu á þjónustu í þágu farsældar barna, að við séum búin að stigskipta þjónustu í þágu barna þannig að þjónusta sé veitt á þremur þjónustustigum, fyrsta stig þjónustu sé sú grunnþjónusta sem er aðgengileg öllum börnum, þar sé veittur einstaklingsbundinn og snemmtækur stuðningur sem er í rauninni veittur barninu og fjölskyldunni og því fylgt eftir á markvissan hátt. Á öðru stiginu eru einstaklingsbundin og markviss úrræði, veitt í samræmi við faglegt mat, að undangengnu einhverju mati og/eða frumgreiningu á þörfum barnsins. Þar er talað um að búa til áætlun til að geta veitt þessa samþættu þjónustu og eftirfylgd, að fylgst sé með því hvernig það gangi og að kerfin og úrræðin tali vel saman. Þriðja stigs þjónusta er svo veitt þegar farsæld barns er hætta búin og þar á að vera mjög sérhæft og ítarlegt mat og greining á stöðunni hverju sinni. Þar verður þessi ýtrasta þjónusta.

Hverjir ætla að sinna þessu? Við erum í frumvarpinu með tengiliði alveg frá fæðingu barns þar til það er ekki lengur barn. Nú skulum við líka hafa í huga að við ræddum um það í nefndinni að við yrðum að passa að það yrði ekki algjört rof við 18 ára aldur. Annað sem var gott við allt þetta starf er að notendur voru allan tímann við borðið. Stanslaust var verið að tala við þá sem munu nota þjónustuna, hvort sem um er að ræða börn, ungmenni, foreldra eða fullorðna sem nýttu þjónustuna sem börn á einhverjum tímapunkti. Leitað var upplýsinga í kringum það allt saman, það var ekki bara kerfið sem kom að samningu þessa máls. Einnig var mjög ríkt samtal við notendur og það skiptir mjög miklu máli.

En tengiliðirnir eru, held ég, líka lykilatriði af því að öll börn og allir foreldrar skulu hafa aðgang að tengilið inn í þjónustuna eftir því sem þörf krefur. Á fyrstu sex árunum er tengiliðurinn starfsmaður heilsugæslustöðvar eða heilbrigðisþjónustu í umdæminu og einnig er það þannig ef þörf er á samþættingu þjónustu á meðgöngu, og er það mjög gott. Um leið og barnið er komið í leik-, grunn- eða framhaldsskóla er tengiliðurinn orðinn starfsmaður skólans þar sem barnið er við nám. Sum börn stunda ekki skóla, eru ekki í námi, og þá skal tengiliðurinn vera starfsmaður félagsþjónustu þess sveitarfélags þar sem barnið á lögheimili. Hvað sem gerist, ef t.d. er rof á búsetu barnsins, ef mikið er verið að flakka á milli, þá er alltaf einhver sem skal tryggja að einhver taki á móti, fyrri tengiliður skal sjá til þess að nýr tengiliður fái nauðsynlegar upplýsingar til að geta gripið barnið þannig að aldrei verði fall í þjónustu, umhyggju eða eftirliti með farsæld barnsins. Það er skilgreint nákvæmlega hvert hlutverk tengiliðanna er, hverjir þeir eru, hverjir eru svo málstjórar þegar um er að ræða einhvers konar þjónustu sem barn og fjölskylda þarf að fá og hvert hlutverk þeirra er og svo stuðningsteymi og áætlun.

Ég vona að þetta mál hljóti brautargengi. Það skiptir mjög miklu máli. En mig langar aðeins í lokin, af því að það er ekki mikið eftir, að koma aftur inn á það sem ég talaði um í upphafi ræðu minnar, hvort hægt sé að meta farsæld til fjár. Við þessa vinnu var leitað til hagfræðingsins Björns Brynjólfs Björnssonar sem fór í mjög ígrundað mat á því og það er alveg ljóst að áföll í barnæsku og afleiðingar þeirra eru í rauninni mest notaða aðferðafræðin til að meta farsæld barna og ef ekki er gripið nógu snemma inn þegar áföll verða í barnæsku þá er hægt að meta áætlaðan kostnað samfélags af því, samfélagsins, hins opinbera, vegna barna sem lenda í erfiðleikum. Til eru bæði innlendar og erlendar rannsóknir sem hafa metið þann kostnað af því þegar áföll í barnæsku hafa neikvæð áhrif á líffræðilegan þroska barna, þegar áföll í barnæsku skerða skynjun, félags- og tilfinningagreind barna, þegar áföll í barnæsku hafa skaðleg áhrif á heilsufarið og hegðun barna bitnar svo á heilsu barnsins sem leiðir aftur til sjúkdóma, örorku og samfélagslegs vandamáls og, ef verst er, til snemmbærs dauða. Það eru allt hlutir sem er í rauninni hægt að rekja til áfalla í bernsku og við vitum að öll þessi atriði eru samfélagslega mjög dýr. Fyrir utan hvað það er dýrt fyrir einstaklinginn er það dýrt fyrir allt samfélagið þannig að ávinningur okkar af því að láta þessi mál ganga hér í gegnum þingið (Forseti hringir.) og verða að veruleika er mjög mikill.