151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[18:56]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Það hefur verið mjög fróðlegt að fylgjast með umræðunni hér í dag. Ég ætla að fara aðeins í gegnum fyrsta frumvarpið, ef við getum orðað það þannig. Þetta er allt sett saman í eina umfjöllun, þ.e. frumvarp um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, frumvarp um Barna- og fjölskyldustofa, og frumvarp um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Þegar ég var að skoða þessi mál tók ég eftir því að Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála hefur verið starfrækt innan velferðarráðuneytisins í tvö ár. Þar má finna ágætisvefsíðu um þetta verkefni. Ég sá að tíu manns vinna hjá þeirri stofnun, þar af einn karlmaður, svo maður setji kynjagleraugun upp.

Það er algerlega tímabært að fara í þessa vinnu og ég er svo sannarlega sammála markmiðinu. Mér finnst ágætt að það sé sett þannig upp að við ætlum að bregðast við sem fyrst, þ.e. með því sem kallað er fyrsta stigs þjónusta og svo annars stigs þjónusta, sem þessi mál fjalla hvað mest um. Það minnir mig dálítið á heilbrigðisþjónustuna okkar og þann vanda sem við stöndum frammi fyrir þar, að tappinn virðist vera það sem við skilgreinum sem þriðja stigs þjónustu. Það á líka við hér, við vitum af öllum biðlistunum sem eru inn á allar stofnanir, greiningarstofnanir, Þroska- og hegðunarstöð, BUGL og annað slíkt. Þetta minnir mig á að það eru biðlistar í allar stærri aðgerðir innan heilbrigðiskerfisins. Verkefni Barna- og fjölskyldustofu er þannig hugsað, eins og ég skil það, að Barnaverndarstofu verði skipt upp, annars vegar fari málefni Barnaverndarstofu til Barna- og fjölskyldustofu og svo verði Gæða- og eftirlitsstofnun með hinn hluta Barnaverndarstofu og þrír starfsmenn Barnaverndarstofu fari á Barna- og fjölskyldustofu.

Nokkuð vel er farið yfir allan málaflokkinn. Það er virkilega vel sett fram hvernig ganga á í þessa vinnu. Það sem er aðdáunarvert, vil ég segja, er að verkferlar eru mjög skýrir. Að því sögðu velti ég fyrir mér hvort ekki sé hægt að fara strax í að virkja þá verkferla. Það getur vel verið að það sé hugsunin þó að mest hafi verið rætt hér um tæknilega þætti, hið svokallaða mælaborð sem á að fara í að vinna, sem er vissulega einnig þarft. En þar sem mér finnst þetta vera það vel unnið finnst mér eiginlega athugandi hvort ekki sé hægt að fara strax og nýta þessa verkferla.

Fjallað er nokkuð ítarlega í 15. gr. frumvarpsins um vísbendingar um að þörfum barna sé ekki mætt. Það er, held ég, á vissan hátt kjarni málsins, þannig meint að ef einhver lætur hjá líða að tilkynna eitthvað sem viðkomandi finnst athugavert eða skorta á þá er hægt að fara með málið lengra. Það er virkilega gott. Hér eru skýrir verkferlar og sérstaklega vel settir fram.

Það sem við þurfum að læra að nota er hugtakið málstjóri. Við þekkjum það frá nágrannalöndum okkar, þar eru málstjórar viðkomandi einstaklinga eða fólks, jafnvel óháð aldri. Það á ekki bara við um börn, heldur bara ef einhver þarf á einhvers konar þjónustu að halda, þannig að það er mjög gott. Þá er spurning hvort það verður viðbótarþjónusta eða hvort hægt verður að nýta áfram þá sem þegar eru innan kerfisins, ef svo má segja, hvort þetta er nýtt starf eða hvað.

Menntun hefur komið til umræðu í sambandi við málstjóra, hvers lags menntun þeir eigi að hafa. Þar eru tvö sjónarmið uppi, þ.e. hvort það sé það þröngt skilgreint að sérstaklega þurfi að huga að menntun eða hvort reyna eigi að hafa það starf töluvert opið í þeim skilningi að við festumst ekki bara í læknisfræðilegum skilgreiningum heldur höfum félagslega sýn að leiðarljósi. Mér þykir þetta frumvarp dálítið gott að því leyti að mér finnst sýn hins félagslega ráða för. Þó svo að vissulega sé hin læknisfræðilega sýn, ef við getum sagt sem svo, ráðandi á fyrstu árum barnsins, þá tekur hin félagslega sýn við, enda skiptir hún líka mjög miklu máli varðandi þroska barna.

Í greinargerðinni er fyrst fjallað um að áhersla sé á aukið samstarf og samhæfingu stjórnvalda, ríkis og sveitarfélaga. Það er lykilatriði í því hvernig við getum komið til móts við börn og fjölskyldur þeirra. Fram kom hér fyrr við umræðuna að mikilvægt væri að hafa fjölskyldurnar með í ráðum. Ég tek undir það sjónarmið, fjölskyldur og foreldrar eru oftast sérfræðingar í málum barna sinna og eru hvað best í að meta hvað þau þurfa. Ég held að við höfum öll heyrt sögur af foreldrum sem farið hafa á milli kerfa og aðila til að reyna að fá aðstoð og hreinlega komið að lokuðum dyrum, þannig vonandi er með þessu girt fyrir það. Talað er um góðan ramma í sambandi við markmið lagasetningarinnar, að brugðist sé hratt við og fyrr en áður ef tilteknar aðstæður koma fyrir eða ef barn lendir í erfiðleikum. Hér er enn og aftur hamrað á heildarsýn og samstarfi lykilaðila, sem er gott, og að fá heildstæða mynd af þessari þjónustu.

Eins og ég sagði eru biðlistar inn á t.d. Þroska- og hegðunarstöð og Greiningar- og ráðgjafarstöð og við vitum af biðlistum til talmeinafræðinga og o.s.frv. þannig að það er spurning hvort ekki þurfi að byrja fyrr á því að virkja ferla sem miða að því að beina fólki inn á þetta fyrsta og annað stig þjónustunnar í von um að hægt og bítandi sé hægt að vinna á þessum biðlistum, annars þurfum við að bíða svo lengi eftir því að þetta fari allt saman að virka.

Það sem eftir stendur er þá sérstaklega spurning um hvort við getum nýtt núverandi starfsmenn í það sem boðað er hér, þar sem við mat á áhrifum þessa frumvarps er talað um að um 19.000 börn hafi á hverjum tíma þörf fyrir þjónustu, tengilið og málstjóra. Það er ansi mikill fjöldi. Að því sögðu er fjallað um að það þurfi 7–45 stöðugildi. Það kostar pening. Fram kemur að 80% kostnaðar falli til hjá sveitarfélögum. Ég heyrði hæstv. ráðherra tala hér um að fjármagn kæmi í gegnum jöfnunarsjóðinn. En nú stöndum við frammi fyrir ákveðnu tekjufalli, ef við getum orðað það þannig, í tekjuöflun sem byggir undir jöfnunarsjóðinn. Mun það ekki hafa áhrif á þá fjármuni sem nota þarf, sem við viljum nota í þetta verkefni?

Ég tek undir að það er mikilvægt að reynum að koma okkur saman um leiðir að þessu markmiði, en ég hef samt áhyggjur af því að þetta sé dálítið stór biti. Svo er annar hluti í þessu sem við höfum heyrt af, þ.e. skortur á fagfólki til að sinna þessum störfum. Stundum er sagt að skortur á fagfólki sé meginástæða þess að við séum með biðlista, ekki endilega að svo mörg börn þurfi á aðstoð að halda heldur sé það skortur á fagfólki. Ég vona að við í velferðarnefnd, sem höldum áfram með þetta mál, einhendum okkur í að fá allar upplýsingar sem við getum fengið. Ég veit að þær liggja fyrir. Við þurfum t.d. að skoða gaumgæfilega útreikningana á hagsældinni og það sem rætt var hér fyrr í sambandi við viðbótarútgjöld ríkisins.

Svo vil ég líka segja að það er í rauninni ekki heil brú í því að vera að kvarta undan peningaleysi þegar um börn er að ræða, ég held að við séum nú flest sammála um það, en raunveruleikinn er því miður oft annar. Þannig að ef ég tek þetta saman er spurning hvort við getum sett vinnuna strax af stað, hvort við séum nú þegar með þá starfsmenn sem við þurfum til að allt gangi upp, hvort kerfin séu farin að tala saman, svo ég hugsi bara upphátt. Síðan er náttúrlega mikilvægt að við náum að innleiða þann snemmtæka stuðning sem okkur er tíðrætt um. Ég var ekki komin lengra, en ég ítreka að ég vona að við náum að fara vel og rækilega ofan í þessi þrjú mál í velferðarnefnd og vænti þess að við munum skila af okkur góðri vinnu.