151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[19:09]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þrjú mál sem öll snúast um breytingar í þágu barna, mál sem lögð eru fram af hæstv. félags- og barnamálaráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni. Þetta eru frumvörp um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, frumvarp um Barna- og fjölskyldustofu og frumvarp um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Ég styð þessi mál heils hugar og hef miklar væntingar til breytinga sem munu fylgja í kjölfar samþykktar þeirra. Ég hef fengið tækifæri til að taka þátt í undirbúningsvinnu vegna þessara mála og þekki málin því býsna vel. Nú erum við komin að því mikilvæga skrefi í vinnunni við breytingar í þágu barna þar sem þessi þrjú mál eru lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar. Það er mjög mikilvægt að við náum að ljúka 1. umr. nú á haustþingi því að þannig gefst velferðarnefnd góður tími til að fara yfir málin og umsagnir sem við getum búist við að berist víða að.

Ég er þakklát fyrir að hafa fengið það hlutverk að leiða þverpólitíska þingmannanefnd um málefni barna sem m.a. vann að undirbúningi frumvarpanna. Ég vil nota þetta tækifæri hér til að þakka fyrir samstarfið í því risastóra samvinnuverkefni sem umbætur í málefnum barna eru. Takk fyrir samstarfið til þessa öll sem eitt. Það er skemmst frá því að segja að samstarfið í þingmannanefnd við undirbúning frumvarpanna var mjög gott, mikill metnaður fyrir viðfangsefninu, skýr sýn á þörfina fyrir breytingar og góð samvinna um niðurstöður. Fulltrúar í þingmannanefndinni koma víðs vegar að af landinu með alls konar menntun og reynslu og hafa upplifað margt í lífi og starfi sem sannarlega kom að gagni í þessari vinnu. Eins og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir fór einmitt yfir hér áðan þá nýttist þessi bakgrunnur vel til að finna sameiginlegu fletina á viðfangsefninu.

Allir þræðir í vinnunni hafa verið tengdir saman af teymi sem hefur haldið utan um vinnuna í félagsmálaráðuneytinu, hefur drifið vinnuna áfram og haldið þéttu samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Ótrúlegur fjöldi fólks hefur líka gefið sér tíma til að miðla af þekkingu sinni og reynslu til verkefnisins, eins og hæstv. ráðherra kom að í framsöguræðu sinni. Mig langar að ítreka hvað það skiptir miklu máli að hafa fengið Samband íslenskra sveitarfélaga að vinnunni frá upphafi því að eins og hefur líka komið fram í umræðunni er mjög stór hluti af þjónustu við börn, og einmitt þessi þjónusta á fyrstu stigum, unninn á vegum sveitarfélaganna.

Eitt af því sem kveikti svo mikla trú á samþættinguna, og ég sá einhvern veginn hvernig hún raungerist og áhrif væntanlegra breytinga, var þegar þingmannanefnd fundaði með stýrihópi ráðuneytanna í málefnum barna. Þar kom svo skýrt fram hvernig samstarf þvert á kerfi opnar nýja glugga og býr til nýjar lausnir á viðfangsefnum sem lengi hafa verið til staðar. Þar er um að ræða samstarf í efsta lagi stjórnsýslunnar, en þannig samstarf þarf einmitt að verða til alls staðar í kerfinu og skiptir auðvitað enn meira máli hjá þeim sem þjónusta börnin beint frá degi til dags. En hér erum við komin með fyrstu þrjú frumvörpin um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, lagaumhverfi sem á að tryggja börnum og aðstandendum þeirra snemmbæran og samþættan stuðning þegar börn þurfa á honum að halda.

Mig langar að draga fram nokkrar áherslur sem þingmannanefndin dró fram í störfum sínum og voru síðan lagðar til grundvallar í vinnu við frumvörpin. Ég lít þannig á að það sé hlutverk Alþingis að skoða þessar áherslur, meta hvort þær eru vænlegar til árangurs og hvort texti frumvarpanna nái utan um áherslurnar sem þingmannanefndin lagði upp með. Gerð er grein fyrir þeim að miklu leyti í greinargerðum með frumvörpunum. Þetta verkefni kemur í hlut velferðarnefndar og ég hlakka til að fylgjast með hvernig sú vinna mun ganga. Ég á ekki sæti í þeirri nefnd þannig að ég mun ekki koma beint að verkefninu áfram.

Meðal þess sem nefndin lagði sérstaka áherslu á í störfum sínum var að horfa heildstætt á þjónustu allan lífsferil barns, frá meðgöngu til fullorðinsára, þannig að tryggja þyrfti ábyrgð á frumkvæðisskyldu stjórnvalda til aðgerða á öllum stigum þar sem þörf er á og samhliða að lögfesta þá skyldu sem lögð er til í frumvarpinu um samstarf þeirra sem veita börnum þjónustu. Til að ná þessum markmiðum er verið að smíða þetta lagaumhverfi sem miðar að snemmtækum stuðningi í því skyni að koma í veg fyrir og/eða draga úr þörf fyrir síðbúin inngrip í líf barna. Þess vegna setti nefndin þetta verkefni í forgang, frumvarp um samþættingu þjónustu, og svo tengd frumvörp um stjórnsýslu eða opinbera stjórnsýslu. Þau frumvörp um stjórnsýsluna voru sett í forgang því að nefndin taldi brýnt að gerðar yrðu breytingar á uppbyggingu stjórnsýslu velferðarmála á vegum ríkisins sem hefði burði til að styðja við og hafa eftirlit með því að börn og barnafjölskyldur nytu samþættingar þjónustu.

Ítrekað hefur verið bent á ágalla á núverandi fyrirkomulagi í stjórnsýslu í barnavernd og þjónustu við börn, m.a. af Ríkisendurskoðun árið 2015, og áður en þessi vinna hófst lágu fyrir tillögur úr fyrri vinnu á vegum félagsmálaráðuneytisins. Meðal þess sem þar hafði komið fram var að nauðsynlegt væri að styrkja eftirlit með gæðum velferðarþjónustu.

Við undirbúning málanna skoðaði nefndin fyrirkomulag nágrannaþjóða í málaflokknum og fyrir liggur samantekt frá rannsóknaþjónustu Alþingis um fyrirkomulag stjórnsýslu í málefnum barna í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Skotlandi. Sú samantekt gæti einmitt nýst velferðarnefnd í sinni vinnu. Norðurlöndin eiga það öll sammerkt að hafa lagt aukna áherslu á mikilvægi samvinnu þeirra sem veita þjónustu í þágu farsældar barna. Þar er almennt mælt fyrir um samvinnu í ýmsum lögum um einstaka þjónustuþætti en víða hefur verið bent á þörf fyrir frekari heildarsýn.

Við útfærslu málanna var samt sem áður ákveðið að líta einkum til Skotlands en frá árinu 2006 hafa skosk stjórnvöld unnið að innleiðingu sérstakrar heildstæðrar stefnu í málefnum barna og ungmenna sem nefnist, með leyfi forseta, „Getting it right for every child“. Þar er áherslan lögð á að hagsmunir barns séu ávallt í fyrirrúmi og tekið er mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins í allri nálgun. Markmiðið er að veita börnum og fjölskyldum þeirra snemmtækan stuðning og viðeigandi aðstoð þegar þörf þykir. Mikið er lagt upp úr því að stuðla að virku samstarfi allra þeirra aðila sem hlutverki gegna í lífi barnsins. Nálgunin hefur almennt gefið góða raun. Þó hafa komið upp ákveðnar áskoranir og gagnrýni á framkvæmd stefnunnar sem tengist m.a. miðlun upplýsinga en í útfærslum á tillögum nefndarinnar hefur verið leitast við að taka mið af þessum áskorunum og aðlaga skosku leiðina Íslandi.

Efnið hefur að miklu leyti verið rakið hér þannig að ég held að ég fari ekki í gegnum það allt aftur, en mig langar að koma aðeins aftur að kostnaðarmatinu. Nefndin lagði ríka áherslu á að vandað yrði til vinnu við mat á fjárhagslegum áhrifum frumvarpanna á ríki og sveitarfélög og við mat á hagrænum ávinningi af breytingum til lengri tíma litið. Nefndin er meðvituð um að ein stærsta áskorunin við innleiðinguna er mögulegur ágreiningur um kostnaðarskiptingu milli stjórnsýslustiga, þjónustukerfa eða einstakra stofnana. Það er því afar brýnt að við lagasetningu og innleiðingu breytinga verði alltaf fundnar leiðir til að skýra kostnaðarskiptinguna og koma í veg fyrir slíkan ágreining. Ég er þess vegna mjög ánægð með þær vönduðu kostnaðargreiningar sem hafa farið fram, hafa verið kynntar og liggja fyrir og sýna fram á ótvíræðan fjárhagslegan ábata af þessari nálgun í þjónustu við börn.

Vinnan að breytingum í þágu barna á eftir að skila fleiri frumvörpum til þingsins en hér liggur fyrir grunnurinn til umfjöllunar og afgreiðslu. Unnið er að breytingum á barnaverndarlögum og síðan að einhvers konar bandormsbreytingum sem eru afleiðingar af þessum þremur frumvörpum. En síðan, eins og hefur komið fram í umræðunni, og í kjölfar þess að svona breytingar verða samþykktar með lögum, fylgir mikilvægt ferli við innleiðingu. Það ferli snýst um að breyta menningu. Til þess þarf símenntun þar sem allir sem starfa með börnum, hvar sem er í opinberri þjónustu, fái tækifæri til að átta sig á og skilja hugsunina á bak við samþættinguna og tækifæri til að átta sig á heildarmyndinni í þjónustunni. Breytingin á menningunni verður að fela það í sér að það verði ekki tilviljun sem ræður því hvernig stuðning börn og fjölskyldur fá. Breytingin á menningunni þarf líka að fela það í sér að allt fólk sem vinnur með börnum fái menntun og þjálfun í samþættingu stuðnings og líti alltaf á það sem sitt hlutverk að leita samvinnu um stuðning við börn og fjölskyldur. Það þarf að breyta menningu þannig að börn og fjölskyldur viti að fagleg aðstoð er sjálfsögð og að hana geti allir fengið. Það er alveg sama hversu gott bakland börn eiga, hvernig sem stórfjölskyldan er, hvort sem barn sýnir áhættuhegðun eða ekki í erfiðum aðstæðum, þá þurfa þau að eiga aðgang að viðeigandi faglegum stuðningi. Þannig er hægt að byggja upp seiglu og auka líkur á farsælu lífshlaupi þrátt fyrir áföll á lífsleiðinni því að fæstir komast í gegnum lífið án áfalla. Það þarf áfram þorp til að ala upp barn, fagfólk og ábyrgt nærsamfélag. Eitt lið. Það breytist ekkert með þessari nálgun en byggðin í þorpinu þéttist.

Ég hlakka til að heyra af vinnu velferðarnefndar með málið og óska nefndinni góðs gengis í vinnunni.