151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

valfrelsi í heilbrigðiskerfinu.

[10:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst þessi málflutningur vera einn hrærigrautur þar sem öllu er blandað saman. Hér er farið með einhverja frasa sem maður áttar sig ekki á að feli í sér neina spurningu í þessum fyrirspurnatíma. (Gripið fram í: Er þetta viðkvæmt?) Þetta er ekki viðkvæmt mál vegna þess að við höfum sögu að segja og hún hefst á upphafsárum þessarar ríkisstjórnar. Við höfum verið að auka framlög til sjálfstætt starfandi stétta. Ég get nefnt sjúkraþjálfara sérstaklega, sem er sjálfstætt starfandi stétt, og breytinguna sem hefur orðið í aðgengi að þeirri þjónustu í tíð þessarar ríkisstjórnar. Eigum við að taka tannlækningar sem annað dæmi og niðurgreiðslu á tannlæknaþjónustu fyrir eldri borgara? Þarna erum við með sjálfstætt starfandi heilbrigðisstétt sem við höfum verið að fjármagna þjónustuna betur fyrir. Ég nefndi rétt áðan að við erum að bæta 100 nýjum hjúkrunarrýmum inn á fjárlög næsta árs til þess að (Forseti hringir.) losa um stíflur í heilbrigðiskerfinu. Allt eru það skýr dæmi um að við erum að leysa vandamál.