151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

uppgreiðslugjald Íbúðalánasjóðs.

[10:56]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og nýjar upplýsingar sem hér koma fram. Ég hef nokkrar viðbótarspurningar til hæstv. ráðherra. Hvaða fyrningarfrestir eiga að dómi ráðherra við gagnvart höfuðstól, gagnvart vöxtum og gagnvart uppgreiðslugjaldi, fari svo að dómur héraðsdóms verði staðfestur? Ég leyfi mér að benda á í þessu sambandi að fyrningarfrestir laga taka til lögmætra krafna, ekki ólögmætra krafna. Getur ráðherra staðfest að með yfirlýsingu ráðuneytisins sé í raun viðurkennt að allir lántakendur sjóðsins geti leitað endurkröfu innan a.m.k. fjögurra ára frá 4. desember 2020, óháð því hvenær þeir greiddu lánið upp?

Þá vil ég leita eftir afstöðu hæstv. ráðherra til þess að í stað eðlilegrar endurfjármögnunar og áhættustýringar hafi sjóðurinn kosið að velta fjárhagsvanda sínum yfir á herðar lántakenda með kröfu um að þeir greiddu hluta vaxta af uppgreiddum lánum áratugi fram í tímann, eins og kemur fram í dómnum. Er hæstv. ráðherra sáttur við þessa framgöngu sjóðsins? Mér heyrist reyndar svo ekki vera.

Ég ítreka að lokum spurningu mína: Hvernig áformar ráðherra að koma til móts við þær þúsundir sem sitja uppi (Forseti hringir.) með fjárhagstjón eftir viðskipti við Íbúðalánasjóð sem héraðsdómur hefur dæmt ólögmæt? Sér ráðherra enga aðra leið en að bíða og vona (Forseti hringir.) að Hæstiréttur muni á endanum skera stjórnvöld úr snörunni?