151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:09]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þær hagræðingaraðgerðir sem ég gat um, að breyta kvenlækningadeildinni, draga úr ómun á hjartarannsóknarstofu og loka geðendurhæfingardeildinni, eru allt aðgerðir sem spítalinn neyðist til að ráðast í á næsta ári út af því að haldið er í það að spítalinn þurfi að vinna upp gamlan halla. Það hefði verið lítið mál fyrir okkur að afskrifa þann halla. Formaðurinn talar um að hann vilji ekki taka eina stofnun út þegar kemur að aðhaldskröfunni. Hann gerir það. Skoðið ykkar eigin breytingartillögu. Þið takið út aðhaldskröfuna þegar kemur að réttindagæslu fatlaðra. Það er ekki hægt að slá ryki í augu kjósenda, að þetta sé einhver regla sem fara þurfi eftir. Þið eruð að taka pólitíska ákvörðun um að halda aðhaldskröfu á spítalann, þið eruð að taka pólitíska ákvörðun um að láta spítalann vinna upp 400 millj. kr. halla. Það var tekin pólitísk ákvörðun áður en þið tókuð við um að afskrá þann halla, það var árið 2017. Af hverju gátuð þið ekki sammælst um að gera það, herra forseti? (Forseti hringir.) Þetta eru aðgerðir sem eru þvert á vilja kjósenda og algjört stílbrot þegar kemur að því ástandi sem spítalinn hefur búið við vegna Covid.