151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Við höfum í frumvarpinu túlkunina á þessari 69. gr. og það er rétt sem hv. þingmaður kemur inn á að hækkunin byggir á mati á áætluðum meðaltaxtahækkunum á vinnumarkaðnum í heild fyrir árið 2021 og þessi 3,6% eru hærri en áætluð hækkun vísitölu neysluverðs, og þess vegna er hún valin. Það liggur fyrir og við þurfum þá að fá eitthvert mat á það sem rengir beinlínis þessa útreikninga. Ég held að túlkunin sé búin að vera eins alla tíð. En svo er ég alveg fylgismaður þess að við færum nú að endurskoða þessa lagagrein þannig að við getum hætt að kljást um það hvað hún þýðir.