151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland prýðisræðu. Það er auðvitað vonlaust í tveggja mínútna andsvari að bera niður í öllum þeim fjölmörgu athugasemdum og punktum sem komu fram í ræðu hv. þingmanns en ég get tekið undir margt og vil um leið nota tækifærið og þakka hv. þingmanni samstarfið í nefndinni.

Í lokaorðum ræðu hv. þingmanns kom fram að í einum af þeim nokkru fjáraukum sem við unnum veittum við 600 millj. kr. til sveitarfélaga til að veita stuðning til lágtekjuheimila sem tryggir jöfn tækifæri barna til íþrótta- og tómstundastarfs. Við erum sannarlega ávallt að leita leiða til að veita stuðning víða í samfélaginu og þetta er auðvitað sem hluti af forvörnum afar mikilvægt og ég tek undir það með þingmanni að við gerum aldrei nóg þarna, alveg sama um hvaða skipulagða tómstundastarf er að ræða. Þetta eigum við að tryggja.

Hv. þingmaður varpaði eiginlega spurningu til mín sem snýr að skuldsetningu ríkissjóðs og hvar við tökum lánin. Við göngum auðvitað frá því í heimildargreinum hér um lántöku. En, já, hv. þingmaður er alveg með rétta tölu, 600 milljarðar, ef við tökum bæði árin. 360 milljarðar á næsta ári, kann að vera að það hafi aukist aðeins. Mestmegnis verður þetta í ríkisbréfum og víxlum, eitthvað í erlendu, mögulega til að mæta styrkingu gjaldeyrisvaraforða. En hv. þingmaður var nokkurn veginn með þetta í ræðu sinni.

Í seinna andsvari ætla ég að koma aðeins inn á sveitarfélögin sem hv. þingmaður tók nokkurn tíma í í ræðu sinni.