151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og segi: Auðvitað gerum við ekki lítið úr þessu og eins og ég sagði áður, margt smátt gerir eitt stórt. Auðvitað safnast þegar saman kemur og allt það er jákvætt. En það sem ég er að kalla eftir eru sérstakar aðgerðir. Það eru sérstakar aðgerðir til fátæks fólks, sérstakar aðgerðir til barnafjölskyldna sem eru að berjast í bökkum, að taka utan um fólk og efla það til dáða, að koma í veg fyrir að það lendi út af sporinu, að koma í veg fyrir að því líði illa, það sé jaðarsett, að það sé ekki samstiga, að það geti ekki tekið þátt með skólafélögum, að það sé hreinlega ekki með í samfélaginu af því að það er út undan. Við höfum alltaf sagt: Það er ljótt að leggja í einelti. Það á enginn að leggja annan í einelti. En það get ég svarið, virðulegi forseti, að þegar ég sat við það borð að þurfa að hokra með börnin mín á almannatryggingabótum og ná aldrei endum saman, oft ekkert nema áhyggjur og vanlíðan, þá var það það eina sem ég gat látið mér detta í hug að stjórnvöld væru að leggja mig og mína í einelti því að mér fannst þau ekki vera að gera það fyrir okkur sem þurfti að gera. Mér fannst ég vera með fjársjóð í mínum fjórum börnum. Mér fannst við líka eiga rétt á því að vera til eins og hvert annað fyrirtæki. Við vorum litla fyrirtækið okkar, við vorum fjölskyldan og við eigum að taka vel utan um alla.

Að lokum segi ég þetta við hv. þingmann: Ég ætla ekki að gera lítið úr því sem við erum að gera þó að ég hefði alltaf forgangsraðað fólki fyrst frá A til Ö.