151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[17:59]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta andsvar. Það sem ég á fyrst og fremst við þegar ég velti þessu fyrir mér er að ég fæ ekki betur séð, og hv. þingmaður getur þá hjálpað mér að skilja það betur eða útskýrt það fyrir mér, en að hér sé verið að leggja til fjármagn sem nálgast 1 milljarð, ef við höldum okkur við sauðfjárbændur og kúabændur, sem á að veita í stuðning og styrk vegna ástæðna sem okkur eru allar kunnar. Það sem ég var að benda á er að öllum öðrum sem fá aðstoð eru sett ýmiss konar skilyrði um það hvernig þeir geti þegið aðstoðina. Hvað þarf tekjufallið að vera mikið? Hvað þarf að segja upp mörgum starfsmönnum? Þetta má ekki vera svona eða hinsegin, mjög ströng skilyrði eru sett og að sumu leyti er gengið dálítið langt í þeim. Engu að síður þurfa allir að uppfylla einhver skilyrði. Hver eru skilyrðin sem verða sett? Fær hvert lögbýli stuðning? Eru einhver neðri mörk á því? Fá þeir stuðning sem ekki eru með mikið umleikis — ég þori nú ekki að tala um tómstundabúskap, það er ekki þannig. Það sem ég meina er að ég sé ekki á hvaða forsendum þetta er gert. Ég segi þetta í hálfkæringi, ég vil taka það strax fram: Þegar hv. þingmaður segir að kýrnar verði ekki settar á hlutabótaleið þá verða ferðamennirnir það ekki heldur.