151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[18:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er ákveðin grundvallarþjónusta sem markaðurinn myndi aldrei uppfylla skilyrði til að reka og hv. þingmaður dró hér fram, eins og löggæslan, sem er mjög gott dæmi. Síðan tók hv. þingmaður dæmi um það til að mynda þegar við kaupum þjónustu í gegnum Sjúkratryggingar í þessu tilviki. Það er vel og sérfræðiþekkingin sem er til staðar er það mikil að það væri býsna óhagkvæmt ef við ætluðum allt að setja þetta allt undir hatt ríkisins.

Hv. þingmaður sagði að það væri snúið. Ég held að það sé ákveðinn misskilningur í umræðunni oft og tíðum þegar verið er að tala um heilbrigðisþjónustuna, af því að hv. þingmaður tók það dæmi. Það er engum vafa undirorpið að við viljum að hið opinbera standi undir rekstri heilbrigðisþjónustu og að við fjármögnum heilbrigðisþjónustu. En það er ekki þar með sagt að sérfræðiþekking geti ekki nýst inn í þann geira með kaupum á þjónustu og ég held að við eigum að gera meira af því. Ég tek undir með hv. þingmanni þar. Þá eigum við bara að horfa á þekkingu. Við þurfum síðan að sjá hvaða þjónusta er veitt, eins og t.d. á sjúkrahúsunum. Hvaða þjónustu þurfum við í mjög flókinni starfsemi? Hvaða sérfræðiþjónustu þurfum við að hafa til staðar í þriðja stigs þjónustu? Þá er annað sem er snúið í þessu, það er þegar markaðir blandast. Það hefur alltaf verið mjög viðkvæmt í allri umræðu. Bankarnir, flugstöðin, áfengið, Pósturinn. Ég spyr hv. þingmann: Hefur Viðreisn gert upp hug sinn varðandi þau mál öll og þær stofnanir sem standa undir þeirri þjónustu?