151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[18:52]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er áhugavert, og ég veit að hv. þingmaður deilir þeirri skoðun með mér, að skoða núna hvernig búið er að víkja til hliðar öllum reglum samkeppnismarkaðarins er kemur að búvöruframleiðslu í Evrópusambandinu. Ég vil byrja þar og segja að kjarninn í því er náttúrlega sá að þegar kreppir að eða þegar kemur upp slíkt ástand eins og við erum að glíma við þá snúa þjóðir sér að því að taka utan um landbúnaðinn sinn og verja hann frekari áföllum. Landbúnaður er atvinnugrein langra framleiðsluferla. Þær ákvarðanir sem teknar eru í dag koma kannski fram í afurð eftir 20–24 mánuði þannig að maður snýr ekki skipinu svo auðveldlega.

Þingmaðurinn spyr hvort þær aðgerðir sem boðaðar eru núna við 2. umr. séu nægjanlegar og hvort þær eigi að ná til fleiri búgreina. Ég held að kjarninn í þessu sé einfaldlega sá að í fyrsta lagi er verið að taka, eins og ég sagði í andsvari hér fyrr í dag, utan um ástand sem getur orðið mjög alvarlegt heima á búum og er bara velferðarmál dýranna. Í öðru lagi er markaðurinn miklu þrengri, hér eru færri neytendur. Þess vegna skapa þessi birgðavandamál vegna ástandsins hér og annars staðar í heiminum eða á okkar næstu mörkuðum þetta afkomuhrun.

Hv. þingmaður nefndi í upphafi tollaframkvæmd og eftirlit með henni. Ég tek alveg undir með hv. þingmanni og ég veit að unnið er að því að koma þeim málum í betra horf. Það var mjög afhjúpandi og sláandi, við skulum bara orða það með þeim hætti, að sjá hvernig framkvæmdin var brotin á mörgum sviðum og ég veit af því að unnið er að úrbótum á þeim sviðum og auðvitað þarf það að vera í lagi og við eigum að virða þá alþjóðasamninga sem við gerum.