151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[19:26]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við nálgumst þetta á ólíkan hátt, það er alveg ljóst. Ég hef ekki sama skilning á því og hv. þingmaður heldur hér fram, af því að kjarasamningar á vinnumarkaði eru allt annað en lífeyristekjur okkar. Það er bara þannig, hvað sem okkur finnst um það. Þegar ég tala um sanngirni þá getur okkur þótt ýmislegt ósanngjarnt eða sanngjarnt þannig að ég bið þingmanninn bara um að leggja mér ekki orð í munn eins og mér fannst hann vera að gera hérna áðan. Við getum haft skoðun á lögunum sem við störfum eftir: Eru þau sanngjörn eða ekki sanngjörn? Það er það sem mér finnst hér verið að tala um.

Varðandi bændur, af því að mér hefur dálítið fundist talað um þá eins og þar séu ekki fjölskyldur og fólk undir sem er láglaunafólk, sem þeir eru sannarlega og hér er verið að setja í það, eins og hv. þingmaður nefndi að við höfum verið að gera gagnvart þeim tekjulægstu, bæði í hópi aldraðra og öryrkja með tilteknum greiðslum, eins og hann þekkir mætavel. Að fara í gegnum heilu kerfin með þennan fjölda fólks, og forsendurnar þar að baki, er þá bara eitthvað sem við þurfum að taka til skoðunar ef við teljum ástæðu til, hvort breyta þurfi lögunum, að þau séu ekki nógu skýr og að þau þurfi um eitthvert annað viðmið en þau hafa. En ég tel að verið sé að fara eftir því viðmiði sem þau hafa.