151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[20:38]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst hér örstutt, vegna þess að ég man ekki alltaf alveg allt þá fletti ég því upp og sé að ég og hv. þingmaður greiddum atkvæði á sama hátt um fjárlög þessa árs. Við sátum báðir hjá við afgreiðslu þeirra. Ætli ábyrgð okkar sé ekki jöfn? Við erum mátulega ábyrgðarlausir þegar kemur að þeim ramma sem var hér fyrir þetta ár.

Skógrækt er fín, hún er fín mótvægisaðgerð gegn loftslagsbreytingum. Hún hefur líka, ef vel er að staðið, jákvæð áhrif á nærumhverfið og fallegur skógur er fallegur. Ég er hins vegar hjartanlega ósammála því að við eigum að taka einn þátt ofar öðrum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Við eigum að rækta skóg, við eigum að endurheimta votlendi, við eigum að skattleggja mengandi iðju og við eigum að styðja þá iðju sem dregur úr mengun og grænar athafnir mannlífsins. Við eigum að gera það allt og margt fleira. Við eigum að beita öllum aðferðum, ekki einum þætti ofar öðrum. Þar kemur skógrækt auðvitað sterk inn. Ég verð bara að viðurkenna að ég á eftir að líta á breytingartillögu Miðflokksins hvað það varðar en mun gera það með opnum hug.