151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[13:08]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þessi fjárlög markast eðli máls samkvæmt mjög af heimsfaraldri kórónuveiru og það sama má segja um alla fjárlagavinnuna og umræðuna sem fram fór hér í gær. Kröftug viðbrögð við alvarlegri stöðu koma vel fram í frumvarpinu sjálfu þar sem lögð er til rúmlega tvöföldun á rammatengdum útgjöldum frá síðustu fjárlögum. Breytingartillögurnar eru óvenjuumfangsmiklar, bæði í fjölda og í fjárhæðum. 55 milljarða kr. viðbótartillögur á milli umræðna staðfesta kröftug viðbrögð, viljann og hugarfarið, stefnu stjórnvalda með kaupum á bóluefni, viðspyrnustyrkjum og fjölþættum félagslegum stuðningi við fólk, félög og stofnanir. Hér erum við sannarlega að spyrna við og koma okkur saman í gegnum þetta.