151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

aðgerðir gegn atvinnuleysi.

[15:11]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Í þessari djúpu efnahagslægð sem við erum í, þeirri dýpstu í 100 ár, og þeirri atvinnukreppu sem henni hefur fylgt hafa þúsundir misst vinnuna. Í nóvember voru 20.906 einstaklingar atvinnulausir í almenna bótakerfinu og 5.448 í minnkuðu starfshlutfalli eða samtals 26.354 einstaklingar. Tekjufall á heimilum fylgir í kjölfar atvinnumissis og hætta er á að skuldavandi taki við af atvinnukreppu ef ekkert verður að gert. Heimilin þurfa stuðning vegna tekjufalls og viðspyrnustyrk líkt og fyrirtækin. Verslunarmannafélag Reykjavíkur hefur lagt fram hugmynd að sértækum stuðningi sem ætlað er að tryggja afkomuöryggi heimila sem hafa orðið fyrir atvinnumissi og tekjufalli í heimsfaraldri. ASÍ hefur tekið undir þá hugmynd. Á heimasíðu VR er bent á það sem er augljóst, að tíminn er knappur til að bregðast við og mörg heimili eru þegar komin á ystu nöf. Hugmynd VR felur í sér aðkomu bæði ríkisins og bankanna. Veitt verði stuðningslán til heimila með 100% ríkisábyrgð og afslætti af heildartekjuskatti til að mæta afborgunum af þeim. Reiknað er með að bankar meti greiðslugetu heimilanna og veiti þeim framfærslulán í formi mánaðarlegrar lánalínu með ríkisábyrgð. Þannig geti heimilin áfram staðið við skuldbindingar sínar og framfleytt sér og sínum á meðan tekjubrestur varir. Slík lánalína væri til allt að 18 mánaða ef þörf krefur.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún hafi kynnt sér þessar hugmyndir og ef svo er hvernig henni lítist á þær. Telur hæstv. ráðherra ekki nauðsynlegt að veita heimilum atvinnulausra aukinn stuðning á þessum erfiðu tímum?